138. löggjafarþing — 68. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[18:42]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Herra forseti. Það má með sanni segja að við lifum á áhugaverðum tímum þar sem allt getur gerst og hið ómögulega verður mögulegt eða öfugt. Ég verð að viðurkenna að ég átti ekki von á því að forseti Íslands mundi ákveða að vísa Icesave-málinu til þjóðarinnar. Það var með nokkrum kvíða sem ég settist niður fyrir framan sjónvarpið og fylgdist með yfirlýsingu hans. Fögnuður minn og geðshræring urðu því mikil þegar mér varð ljóst að við þjóðin mundum fá tækifæri til að axla þá ábyrgð sem forseti lýðveldisins færði okkur þann 5. janúar.

Það sem þjóðin upplifði þennan dag var með sanni sögulegur viðburður og ætti að vera hornsteinn að því að sú eðlilega krafa sem hljómaði úr taktföstum slætti mótmæla og andófs af ýmsu tagi síðan allt hrundi hér, verði að veruleika, sú krafa að þjóðin fengi alvöruverkfæri til að hafa áhrif á samfélag sitt, ef hún svo kallaði eftir, oftar en á fjögurra ára fresti. Því fagnaði ég og ég gerði mér grein fyrir því að þetta snerist ekki endilega um Icesave heldur um þann lýðræðislega rétt að geta knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það hefur verið mikið baráttumál hjá mér ásamt fjöldamörgum öðrum manneskjum hérlendis að auka veg lýðræðis og vægi beins lýðræðis meðal þjóðarinnar. Þess vegna hefði það verið betra á þessum sögulegu tímum að við þyrftum ekki að afgreiða einnota frumvarp. Ég vil þó taka fram að ég hef fullan skilning á því hve tíminn er knappur. Ég finn þó að það er alvöruáhugi meðal fjölmargra þingmanna í stjórn og minni hluta að tryggja að þjóðaratkvæðagreiðslufrumvörpin tvö sem bíða í nefnd fái afgreiðslu fljótlega. Ég vona að það sé fullur einhugur meðal þingmanna að hindra ekki þær lýðræðisumbætur sem nauðsynlegar eru hér á landi þannig að samfélagið okkar verði virkara og heilbrigðara því að ekki viljum við aftur lenda í sömu súpunni og við erum að krafsa okkur upp úr.

Ég hjó eftir því þegar þetta frumvarp var lagt fram að ekki var gert ráð fyrir því að miðla óhlutdrægum upplýsingum til almennings um það sem kjósa á um. Við í Hreyfingunni vorum því búin að undirbúa breytingartillögur til að tryggja það en sú ánægjulega þróun varð á meðferð þessa máls í dag að fullur einhugur hefur skapast um að það sé einfaldlega sjálfsagt mál og ég fagna því. Því voru allir sammála um að best væri að óháður aðili mundi sjá um að koma staðreyndum til almennings og hefur það verið tilgreint í nefndaráliti. Vegna þessa hefur Hreyfingin ákveðið að draga til baka breytingartillöguna en við munum þó fylgja því fast eftir að þetta verði gert með sóma. Ég held að það sé nauðsynlegt að tryggja að efnið verði ekki aðeins aðgengilegt á netinu, ég legg til að útbúinn verði bæklingur sem dreift verði á öll heimili í landinu. Ég held að það væri skynsamlegt að halda opna borgarafundi víðs vegar um landið til að gefa fólki kost á að spyrja sérfræðinga um staðreyndir, vonandi ómengaðar af pólitík.

Það vita það svo sem allir að þetta mun verða hápólitískt mál og varla hægt að ætlast til þess að stjórnmálamenn muni stíga til hliðar og leyfa almenningi að taka upplýsta ákvörðun, en ég ætla samt að leyfa mér að skora á kollega mína að gera það. Ég vil reyndar taka það fram að það er ekki alls kostar rétt að um þessa hugmyndafræði hafi ekki verið rætt á allsherjarnefndarfundinum í dag. Ég fór nefnilega með nákvæmlega sömu spurningu og hv. þm. Lilja Mósesdóttir spurði hér í andsvari til formanns allsherjarnefndar og það var lítillega rætt um þetta, bara til að halda því til haga. Allir voru á þeirri skoðun að stjórnmálamenn gætu ekki hamið sig í að ræða um þetta mál.

En það er mikilvægt að þetta mál snúist ekki um stjórnir, flokka og forseta því að núna á réttur almennings að vera í forgrunni, réttur almennings til þess að hafa áhrif á framtíð sína. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka forseta lýðveldisins fyrir að standa með þjóðinni sinni en ekki fjármagnseigendum. Fáir forsetar hefðu gert hið sama og á hann þakkir skildar fyrir það.

Ég hvet almenning til að vera vakandi fyrir áróðri. Hér varð t.d. enginn dómsdagur þó að hæstv. ríkisstjórn hafi næstum því tekist að hræða líftóruna úr þjóðinni daginn sem forseti Íslands ákvað að hlusta á ákall þjóðarinnar. Nei, hér varð enginn dómsdagur frekar en fyrri daginn og því er mikilvægt að fólk byggi ákvarðanir sínar varðandi þetta mál út frá staðreyndum en ekki ótta.