138. löggjafarþing — 68. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[19:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Það mál sem við ræðum nú, frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna Icesave-málsins sem forsetinn vísaði frá eða til þjóðarinnar, er mjög athyglisvert og það hefur orsakað mjög mikla kynningu um allan heim. Síðustu tveir dagar hafa verið einstakir að því leyti að okkur hefur tekist að kynna málstað okkar erlendis og líka hafa erlendir aðilar komið upp á yfirborðið erlendis og tekið okkar málstað. Ég nefni þar forsíðugreinar í Financial Times og öðrum virtum fréttamiðlum. Ég lít þannig á að nú þurfi Íslendingar og allir hv. þingmenn að mynda samstöðu um hvernig við mætum þessu. Eins og kom fram hjá einum aðila í útlöndum, eftir minni, eru Íslendingar einir á móti heiminum. Það er verið að kúga okkur til að taka upp ákveðna breytingu til þess að fela galla í regluverki Evrópusambandsins og það er mjög mikilvægt að Íslendingar líti á þetta sem sameiginlegt verkefni okkar allra og að menn vinni mjög vel saman.

Ég veit að þetta er afskaplega viðkvæm staða. Á Íslandi er oft litið á samningsvilja sem veikleika. T.d. var viðtal við mig í gær þar sem ég ræddi um þjóðaratkvæðagreiðslur og sagði að það væri góð leið en jafnframt að menn skyldu semja og þá var litið á það sem vingulshátt hjá mér að ég vildi fara þá leið. Þannig túlkaði fréttamaðurinn það alla vega í lokin og ég var ekkert voðalega sáttur við það. Ég held að sé mjög mikilvægt að menn líti ekki á samningsvilja sem veikleika heldur sem þátt í því að búa til innri styrkleika þjóðarinnar. Ég held að nú þegar, með því að forsetinn tekur þetta merkilega skref — menn hafa ýmsar efasemdir, í mínum flokki sérstaklega og ég jafnframt líka, um að forsetinn sé að verða pólitískur en hann tekur þetta merkilega skref í þessu máli og sýnir að Íslendingar láta ekki allt yfir sig ganga. Um leið og við gerum það minnkar vilji kúgaranna til þess að kúga. Þetta er þekkt í öllum mannlegum samskiptum.

Ég held að við ættum að reyna að ná fram samstöðu allra flokka og að menn lofi að líta eingöngu til núverandi stöðu og framtíðarinnar, hvernig við vinnum úr núverandi stöðu til framtíðar en ekki nudda hver öðrum upp úr fortíðinni. Allir eiga núna sína forsögu, líka vinstri grænir, þeirra fjármálaráðherra skrifaði jú undir samninginn 5. júní og það er nú aldeilis forsaga. Aðrir hafa einkavætt banka í fortíðinni o.s.frv. Ég held að menn ættu ekki að nudda hver öðrum upp úr þessu, í þessu máli sérstaklega, heldur standa saman að því að mæta þessari árás á Ísland erlendis frá og mynda um það samstöðu. Svo geta menn rifist um það eftir á og reynt að fara í gegnum það hver eigi sök á þessu og hinu o.s.frv., farið í söguskýringar og sögumyndun eins og svo margir eru hrifnir af.

Ég held að núna sé gullið tækifæri, alla vega þegar maður les heimspressuna. Reyndar varð ég fyrir miklu áfalli þegar fyrstu fréttirnar komu vegna þess að ég sá hvað okkur Íslendingum — þá tala ég um Íslendinga, ekki ríkisstjórnina — hefur gjörsamlega mistekist að upplýsa umheiminn um stöðuna. Það stóð upp úr hverjum fréttamanninum á fætur öðrum fyrsta daginn að Íslendingar ætluðu ekki að borga neitt, bara hverfa frá öllu saman og neita að borga sjálfsagða kröfu fátækra sparifjáreigenda í Bretlandi og Hollandi. Þeir eru reyndar ekki allir fátækir en þannig var þetta lagt út. Síðan fór að koma meiri skynsemi í þetta og það kom í ljós að Íslendingar hafa gengist undir þessar kröfur með lögunum frá því í sumar, sem mér fundust alltaf vera afskaplega sanngjörn. Lögin sem gerð voru í sumar og fyrirvararnir í þeim voru þannig að það voru mjög háir vextir, hættulega háir, en greiðslubyrðin tók mið af greiðslugetunni. Það var mjög mikilvægt.

Núna stöndum við frammi fyrir því að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er mjög hlynntur því að þjóðin taki ákvörðun í svona veigamiklum málum. Ég vil undirstrika það, herra forseti, að ég er mjög hlynntur því að farið sé í þjóðaratkvæðagreiðslu um stærri mál, ekki kannski kjósa einu sinni í viku en að menn noti beint lýðræði oftar. Tímasetning þjóðaratkvæðagreiðslunnar er ákveðið tímamark fyrir Breta og Hollendinga til þess að semja því þeir vita ekkert frekar en ég hvað kemur út úr þessari þjóðaratkvæðagreiðslu. Mér segir svo hugur að þeir muni, hafandi lesið skoðanakannanir á Íslandi — þeir hafa nefnilega miklu meira afl til þess að kanna alls konar upplýsingar og það er örugglega allt þýtt til þeirra, bæði það sem ég er að segja núna, herra forseti, og eins það sem kemur út úr skoðanakönnunum, bloggsíðum o.s.frv. Þetta er allt skoðað. Þeir vita að það er mikil mótstaða í landinu við að samþykkja þennan breytta samning og þar af leiðandi munu þeir sjá að það myndast mjög erfið staða fyrir þá ef þetta verður fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hugsa því að þeir verði tiltölulega viljugir til að semja í þessari stöðu, líka í ljósi þess að upp kom ákveðinn andi í útlöndum um að Íslendingar eigi ekkert að greiða, að það sé ekki mál verkakonunnar á Raufarhöfn að borga fyrir fjármagnseigendur í Hollandi eða Bretlandi.

Hvað getum við svo samið um, herra forseti? Sumir hafa sagt að við sjálfstæðismenn ættum að leggja á borðið að við viljum fá 3,56% vexti o.s.frv. Þeir sem hafa samið einhvern tímann vita að þegar maður fer í samninga er ekki gæfulegt að gefa upp hvað ætlunin er að semja um því þá er byrjað að semja frá þeim punkti. Menn hljóta að fara til samninga með ákveðið markmið sem þeir segja engum frá. Það eigum við Íslendingar að gera. Við getum t.d. kynnt fyrirvarana frá í sumar, að þetta séu tryggingarfyrirvarar sem tryggi þjóðina fyrir áföllum, eins og t.d. því að neyðarlögin haldi ekki, að enginn hagvöxtur verði á Íslandi, miklum brottflutningi fólks frá Íslandi eða að það verði verðhjöðnun í Bretlandi og 5,55% vextir komi út sem gífurlega háir raunvextir. Ég held að mesta áhættan sem við Íslendingar mætum sé verðhjöðnun á evrusvæðinu eða í Bretlandi þannig að þessir raunvextir verði 5,5% eða jafnvel hærri sem er óbærilegt, herra forseti. Það er eitthvað sem við höfum engin áhrif á. Ef það verður safarík verðbólga í Bretlandi förum við létt með að borga þetta, mjög létt. Við ættum því eiginlega að leggjast á bæn núna og óska Bretum þess að þar verði mikil verðbólga því það kæmi okkur vel þótt það yrði auðvitað slæmt fyrir það þjóðfélag.

Við gætum samið um nýtt frumvarp með mikið lægri vöxtum, þ.e. ekki tryggingar en mikið lægri vexti því það má segja að mjög háir vextir réttlæti tryggingarnar. Þegar fyrirvararnir falla burt getum við haft 1,5% vexti eins og Bretar eru með gagnvart sínum innlánstryggingarsjóði. Ef þeir ætla að gæta samræmis, jafnréttis og jafnræðis milli innlánstryggingarsjóða í Evrópu ættu þeir að lána íslenska innlánstryggingarsjóðnum með nákvæmlega sömu kjörum, meira að segja með hámarki eins og breski innlánstryggingarsjóðurinn nýtur líka. Mér er ekki kunnugt um hvaða vexti Hollendingar lána en ég hef jafnvel grun um að þar sé lánað vaxtalaust.

Menn gætu líka farið út í að semja um nýtt, einfalt módel, að Íslendingar borgi 100 milljarða eða eitthvað svoleiðis, eða Íslendingar borgi upphæðina sem stendur upp úr árið 2016 þegar búið er að ganga frá öllum uppgjörum. Það verði þá með lágum vöxtum og það verði vextir á milli ríkisstjórna en ekki með því að setja einkafyrirtæki inn á milli.

Hæstv. forsætisráðherra hélt hér ágæta ræðu nema hann sagði að tillaga mín á þskj. 610, breytingartillaga sem var felld naumlega 30. desember, hefði verið markleysa. Mér þótti leiðinlegt að heyra þetta frá hæstv. forsætisráðherra. Mér finnst leiðinlegt þegar sagt er að eitthvað sem ég legg fram og hef mikla trú á sé bara í plati. Ég ætlaði að gera kröfu um að hæstv. forsætisráðherra mætti til þess að hlusta á hvað mér þætti það leiðinlegt en ég ætla ekki að gera kröfu um það því ég geri ráð fyrir að hæstv. forsætisráðherra hafi nóg að gera í stöðunni. Það væri miklu betra að hann upplýsti erlenda fréttastofu um eitthvað á þessu augnabliki en hann hlustaði á hvað mér þótti þetta leiðinlegt.

Ég hef ekki skipt um skoðun varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu, svo það komi alveg skýrt fram. Ég er hlynntur því og spurði áðan t.d. um rafrænar kosningar, hvort þær væru möguleiki því þá væri þetta miklu einfaldara, hvernig færi með kynningu og hvernig menn gerðu þetta því við erum á vissan hátt að fara þarna inn á nýland, eitthvað sem við höfum ekki gert áður. Ég hef því ekki skipt um skoðun. Ég vil að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram og ég hlakka til að þjóðin verði spurð um þetta mál en ég vil nota tímann fram að þeim tímapunkti til þess að komast að góðum samningum við Breta og Hollendinga. Þjóðaratkvæðagreiðslan yrði væntanlega óþörf ef samningar yrðu þannig að þingmenn gætu almennt fallist á þá, t.d. ef Bretar og Hollendingar féllust á fyrirvarana frá því í sumar eftir að hafa verið kynnt í hörgul um hvað þetta fjallaði, á pólitísku stigi, ekki hjá embættismönnum heldur milli þingmanna og ráðherra. Þá gæti vel verið að þeir féllust á þetta, sérstaklega þar sem fjármálaráðherra Hollands er alveg sammála því að það eigi ekki að borga þegar það verður kerfishrun. Ég las þetta í ræðu sem hann hélt 3. mars sl. Hann ætti því að geta fallist í hvelli á þessa fyrirvara sem við gerðum í sumar.

Um hvað er í rauninni verið að kjósa, herra forseti? Menn þurfa að hafa það alveg á tæru og það hefði þurft að koma því á framfæri við fjölmiðla um allan heim. Það er verið að kjósa um lögin frá því í sumar sem voru gildandi þar til forseti neitaði að skrifa undir en þá tóku nýju lögin gildi. Þau eru því ekki lengur í gildi en ef þjóðin fellir þessi lög taka þau lög aftur gildi. Ég hef ekki vitað til þess að Bretar og Hollendingar hafi hafnað þessu formlega. Þeir sendu „non letter“ og „one shot“ og alls konar skrýtin nöfn, bréf sem eru ekki bréf og sem eru bara send einu sinni. Þeir forðuðust sem sagt að gefa til kynna að þeir hefðu hafnað þessum fyrirvörum. Ef þjóðin hafnar þessu nýja frumvarpi ganga gömlu lögin aftur í gildi og Bretar og Hollendingar geta því sent inn bréf um að þeir fallist á fyrirvarana.

Um þetta eru menn að kjósa, eða þá nýja samninginn sem er allt annars eðlis. Þá er búið að taka þessar tryggingar að mestu leyti burt, við borgum hvert einasta pund og hverja einustu evru og borgum alltaf vexti, sem er eiginlega það afdrifaríkasta ef hér verður enginn hagvöxtur. Nú eru ákveðnar líkur á að hér verði góður hagvöxtur og það eru ákveðnar líkur á að það verði ákveðin verðbólga í Bretlandi og Hollandi. Ég met líkurnar svona 50% á að við eigum nokkuð auðvelt með að borga þetta en það eru líka kannski 20% líkur á að upp komi sú staða að við getum alls ekki borgað vextina. Þá lendum við í því að ríkisábyrgð íslenska ríkisins er ekki gild og við erum þá við þjóðargjaldþrot. Við megum ekki taka svona sénsa fyrir íslenska þjóð og börnin okkar. Við mundum aldrei fara í rússneska rúllettu með barnið okkar, að það væru 5/6 líkur á að það lifði af en líka 1/6 líkur á að það dæi. Við mundum aldrei nokkurn tímann, aldrei í lífinu gera svoleiðis við barnið okkar en í rauninni taka menn svipaða áhættu í þessu dæmi. Það eru töluverðar líkur á að það gangi vel en það eru samt 10–20% líkur á því að við getum ekki staðið við þessa ríkisábyrgð. Um þetta eru menn að kjósa.

Síðan eru menn að kjósa um að ef frumvarpið frá í sumar verður fellt komi hér frostavetur, eins og ríkisstjórnin hefur sagt. Það er reyndar hlýtt úti núna, það er kominn frostavetur í Evrópu, í Bretlandi og Hollandi en ekki hérna á Íslandi. Menn hafa samt sagt að það komi alls konar áföll. SA, BSRB, ASÍ og fleiri aðilar hafa bent á að þetta sé afskaplega slæmt og við verðum að samþykkja þetta nýja frumvarp hvað sem það kostar. Þar eru í gangi skammtímasjónarmið. Menn hugsa um hvað gerist á næstu vikum, næstu mánuði og kannski næsta hálfa árið en menn hugsa ekki til langtíma hvað gerist árið 2016. Af því hef ég mestar áhyggjur, hvað gerist árið 2016 og hvað gerist þangað til, hafandi þetta vofandi yfir sér, þessa gífurlegu skuldbindingu sem bæði lánveitendur Íslands og matsfyrirtæki hljóta að taka tillit til. Þetta vofir yfir. Skuldsetning íslenska ríkisins verður of mikil. Þjóðin stendur frammi fyrir því í þessari kosningu að kjósa um skammtíma frostavetur eða eitthvað sem getur hugsanlega gerst — það hefur reyndar ekki gerst enn þá, nema þetta matsfyrirtæki Fitch sem lækkaði lánshæfismat Íslands — og hins vegar langtímahagsmuni þar sem getur farið mjög illa eftir einhvern tíma og við getum ekki staðið við ríkisábyrgðina. Mér finnst að þjóðin sé að kjósa um það. Það er ekki spurning, herra forseti, að ég hef miklu meiri áhyggjur af langtímahagsmunum og stóru áföllunum sem við getum lent í út af þessum samningi en einhverjum smágárum sem myndast á næstu vikum og mánuðum út af því að þetta verði fellt.

Síðan er spurningin: Hvernig verður kosningabaráttan? Ég ræddi það áðan. Það er svo merkilegt að ASÍ og BSRB, hvort tveggja verkalýðsfélög sem eru með allt að því skylduaðild og skyldugreiðslur — alla vega BSRB því það er lagaskylda að borga í BSRB, hvort sem menn vilja vera í stéttarfélögum eða ekki, það er afskaplega merkilegt fyrirbæri og eiginlega ætti að banna það eins og skot — en þessi samtök, ASÍ og BSRB, eru hægt og rólega, raunar tiltölulega hratt vildi ég segja, að breytast í stjórnmálaflokka. Þau eru farin að taka afstöðu aftur og aftur með ákveðnum flokkum. Það er athugunarvert hvort ástæða sé til að skylda fólk með lögum eða samningum til að borga í verkalýðsfélög sem hafa breyst í stjórnmálaflokka. Það er mjög athyglisvert.

Í þessari kosningu sem við stöndum frammi fyrir verða þessir aðilar með mikið fé, plús náttúrlega ríkisvaldið sjálft. Ég vona að ekki verði farið að kenna það í skólum og kirkjum — hæstv. kirkjumálaráðherra gæti farið að segja prestum að predika það að samþykkja samninginn. Ég ætla að vona að það gerist ekki en annað eins hafa menn upplifað. Þetta er hættan, hvort ríkisvaldið muni beita sér í þessu máli og nota stjórnsýsluna og allt kerfið. Þú færð ekki vegabréf nema þú samþykkir Icesave, eða eitthvað svoleiðis. Við stöndum því frammi fyrir því að sterk og mikil félagasamtök sem byggð eru á alls konar þvingunum til að vera félagar, BSRB, ASÍ, SA og SI, sem líka eru með skattpeninga sem félagsgjöld, iðnaðarmálagjaldið — að þessir aðilar standi með ríkisvaldinu, þar sem fé og völd standa saman gegn mjög veikburða samtökum eins og Indefence sem ekki vilja greiða þetta. Ég held menn þurfi virkilega að skoða nákvæmlega hvernig svona kosningabarátta fer fram vegna þess að við kunnum þetta ekki.

Ég lagði til í sumar að við nýttum tímann í þrjár vikur og sendum þingið út um alla Evrópu til að kynna málið og frestuðum því að greiða atkvæði um lögin á meðan. Að við færum um alla Evrópu og kynntum okkar málstað, sérstaklega fyrir Bretum og Hollendingum þannig að þeir skildu að þetta væru tryggingar til að tryggja að þjóðin greiddi á meðan hún gæti en ekki þegar hún getur ekki. Það er ekki hagur neins, hvorki Breta né Hollendinga, að Íslendingar geti ekki greitt. Þeir ættu því að sjálfsögðu að samþykkja þetta. Þetta hlaut ekki mikinn hljómgrunn í sumar enda voru þingmenn orðnir afskaplega þreyttir. Það er kannski mesta hættan við þetta mál allt saman, að þjóðin og allir verði mjög þreyttir. Við megum ekki verða þreytt.

Ég vil lýsa yfir mjög mikilli ánægju með breytingartillögur hv. allsherjarnefndar. Þær eru til bóta og svör hv. framsögumanns og formanns nefndarinnar voru mjög góð. Ég var mjög ánægður með það.