138. löggjafarþing — 68. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[19:26]
Horfa

Frsm. allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil við lok 2. umr.. um þetta mál þakka öllum nefndarmönnum í hv. allsherjarnefnd fyrir samstarfið. Við urðum að vinna hratt og vel á þeim stutta tíma sem við höfðum í dag og allir sammæltust um að gera það. Ég vil þakka fyrir það.

Ég vil einnig þakka fyrir málefnalegar umræður sem hafa átt sér stað um þetta mál, þar sem menn hafa skipst á skoðunum. Í lokin vil ég, virðulegi forseti, af sérstöku tilefni geta þess varðandi 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins, þar sem segir: „Meiri hluti greiddra atkvæða ræður niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar“, sem við bætist samkvæmt breytingartillögu „á landinu öllu“. Þar er að sjálfsögðu átt við gild atkvæði.

Í 100. gr. laga um kosningar til Alþingis segir að atkvæði sem er autt skuli telja ógilt atkvæði. Slíkur kjörseðill hefur því ekki áhrif á úrslit atkvæðagreiðslunnar, þannig að það sem ræður úrslitum í atkvæðagreiðslunni er hvort já-in eru fleiri en nei-in.

Ég vil, eins og ég segi, virðulegi forseti, af sérstakri ástæðu geta þess í þessari umræðu.

Í lokin langar mig, virðulegi forseti, til að beina stuttri fyrirspurn til hæstv. dóms- og mannréttindaráðherra, vegna þess að athygli mín hefur verið vakin á því að í 5. gr. frumvarpsins þar sem talað er um fjölmiðla er talað um auglýsingar í Ríkisútvarpi og dagblöðum. Ég hygg að þetta sé til komið vegna þess að þetta byggir á lögum frá árinu 2000, þegar netmiðlar voru ekki eins virkir fjölmiðlar og þeir eru í dag, en ég tel sjálfsagt og eðlilegt að auglýsingar og öll umfjöllun af hálfu opinberra aðila um þetta mál fari einnig fram í netmiðlum til jafns við Ríkisútvarp og dagblöð, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Mér finnst þetta mál kannski ekki vera af þeirri stærðargráðu að það þurfi að gera formlega breytingartillögu um það milli 2. og 3. umræðu, en ég vil hins vegar árétta þetta og draga hér fram, vegna þess að mér finnst það mikilvægt. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sé ekki sammála mér um það að netmiðlar verði teknir þarna inn og þeim gert jafnhátt undir höfði og öðrum miðlum hér á landi.