138. löggjafarþing — 70. fundur,  29. jan. 2010.

úrræði fyrir fólk í greiðsluerfiðleikum.

[12:12]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir fyrirspurnina. Þetta er auðvitað mál sem liggur á okkur öllum, að það sé sem best gert fyrir heimilin í landinu. Ríkisstjórnin hefur frá upphafi verið að vinna í ýmiss konar úrræðum sem hafa nýst mjög mörgum í greiðsluerfiðleikum. Það má nefna að um helmingur lántakenda Íbúðalánasjóðs hefur nýtt sér greiðslujöfnun lána og heldur fleiri hafa nýtt sér hana í öðrum lánastofnunum. En við höfum ekki látið þar við sitja. Það er verið að vinna frekari úrræði, bæði á vegum dómsmálaráðuneytisins og félags- og tryggingamálaráðuneytisins sem ég vænti að muni sjá dagsins ljós, ja, vonandi kannski strax í næstu viku. Þessi úrræði snerta nauðungarsölurnar sem er brýnt að taka á og skoða hvernig með skuli farið og unnið úr.

Þá er alveg ljóst, eins og hv. þingmaður nefnir, að athugasemd hefur verið gerð við greiðsluaðlögunina og framkvæmd hennar. Það er verið að vinna í samráði við dómsmálaráðherra að endurbótum á henni og þar er tekið tillit til þeirra athugasemda sem hv. þingmaður nefndi og komið hafa fram hjá ASÍ.

Ég er að vona að við sjáum endurbætt frumvarp fljótlega að því er varðar greiðsluaðlögunina og að við sjáum þá jafnframt frekari úrræði og hvernig haldið skuli á málum þeirra sem eru komnir með eignir sínar í nauðungarsölu.

Það er svo varðandi þetta mál að stjórnvöld og stjórnarandstaða þurfa að vera með það í sífelldri skoðun, sérstaklega náttúrlega að skoða þá hópa sem eru í miklum vandræðum. Kannski öðrum hvorum megin við 15% þeirra sem skulda eru í miklum vandræðum og það þarf að skoða alveg sérstaklega hvernig hægt er að hjálpa þeim. Þar er ég að vona að endurbætt greiðsluaðlögun muni (Forseti hringir.) skila okkur nær því að finna úrlausnir fyrir þann hóp.