138. löggjafarþing — 70. fundur,  29. jan. 2010.

bréf forsætisráðherra til forseta Íslands.

[12:17]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þann 4. janúar sl. skrifaði hæstv. forsætisráðherra bréf til forseta Íslands til að reyna að hafa áhrif á skoðanir hans um lög nr. 1/2010. Í bréfinu kemur m.a. fram, með leyfi forseta:

„Bretar og Hollendingar hafa leyst til sín kröfur meginþorra innstæðueigenda á þrotabú LÍ. Í krafti þeirra munu þeir fá til sín langstærstan hluta þess sem greiðist úr þrotabúinu og væntanlega um 90% upp í kröfur sínar. Þeir munu þannig fá á næstu 7 árum allar þær greiðslur sem þeir hefðu fengið samkvæmt samningunum. Í krafti þessarar afgerandi meirihlutastöðu meðal forgangskröfuhafa í þrotabúið munu Bretar og Hollendingar í reynd nánast verða eins og eigendur þrotabúsins. Sem slíkir mundu þeir ráða afar miklu um hvernig úr því vinnst og hafa áhrif á hvernig það heldur á málum m.a. gagnvart íslenskum aðilum sem eru skuldunautar þrotabúsins.“

Í ljósi þess að verið er að leggja óviðráðanlegar byrðar á þjóðina með þessum Icesave-samningum spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Um hvaða skuldunauta er að ræða sem minnst er á í þessu bréfi? Hvað eru þessar skuldir háar sem þessir skuldunautar bera? Hvaða veð liggja að baki þessum skuldum? Hvaða hagsmunir eru í húfi sem gera það að verkum að verið er að leggja tæpa 40 milljarða á ári á þjóðina næstu sjö árin auk annarra skulda? Hvað er verið að verja hér og hverjir eru þessir skuldunautar?