138. löggjafarþing — 70. fundur,  29. jan. 2010.

bréf forsætisráðherra til forseta Íslands.

[12:18]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé öllum ljóst að þó að Icesave-málið verði fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu hleypur málið ekki frá okkur. Það hefur verið skoðað og til þess var vitnað í því bréfi til forsetans sem hv. þingmaður nefndi að Hollendingar og Bretar munu ekki fá minna í sinn hlut á þessum næstu sjö árum þó að málið verði fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Menn verða að átta sig á því að þeir hafa þarna ákveðinn forgang í búið, eins og hv. þingmaður nefndi. Við erum auðvitað ósammála um það, eins og kannski áður, að verið sé að setja, eins og hv. þingmaður orðaði það, óviðráðanlegar byrðar á samfélagið sem það getur ekki staðið undir. Vissulega eru þær þungar og vissulega eru þær erfiðar og vissulega hefðum við öll viljað vera laus við að íslenska þjóðin þyrfti að taka á sig þessar skuldbindingar, enda höfum við haldið því rækilega til haga að út af gölluðu greiðsluverki viðurkennum við ekki að okkur beri þessar skuldbindingar. Engu að síður eru þessar skuldbindingar með þeim hætti að þetta er ekki það erfiðasta sem íslenska þjóðin hefur við að glíma á næstu árum. Það hefur verið reiknað út að miðað við 88% endurgreiðslu úr búinu séu Icesave-skuldbindingarnar nálægt 15% af landsframleiðslu sem þurfi að renna í þessar skuldir. (Gripið fram í.) Eins og iðulega hefur komið fram eru aðrar miklu þyngri skuldbindingar en Icesave-skuldbindingin, m.a. þær skuldbindingar sem Seðlabankinn setti á ríkissjóð með óvarkárni í lánveitingum til bankanna.

Ég held að það sé alveg grundvallaratriði að menn geri sér ljóst að þetta mál er ekki leyst (Forseti hringir.) þó að það verði fellt í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Hollendingar og Bretar munu a.m.k. á næstu sjö árum ekki fá minna en þeir munu fá úr þeim samningum sem voru gerðir við Breta á sínum tíma.