138. löggjafarþing — 70. fundur,  29. jan. 2010.

bréf forsætisráðherra til forseta Íslands.

[12:22]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki frekar en aðrir nákvæmlega listann yfir þessa kröfuhafa og skuldunauta í bönkunum. Þetta er fyrst og fremst í höndum skilanefndarinnar, eins og hv. þingmaður veit, (Gripið fram í.) og að hluta til Bankasýslunnar sem sjá um að ganga frá þessum málum. Við vitum fyrst og fremst skuldirnar í heildarsamhengi en ekki hjá einstaka aðilum eða hvað þeir skulda. Þannig er staðan og við höfum margfarið yfir þetta.

Hitt er annað mál að auðvitað hefur komið upp sem ein hugmynd í þessu máli að ríkisábyrgðin mundi einungis ná til þess sem eftir stæði þegar búið væri að greiða úr búinu. Það er ein hugmynd sem hefur verið rædd og ég veit ekki hvort hún kemur aftur upp á borðið ef menn fara að ræða aftur við Hollendingana og Bretana sem alls ekki er víst að verði á næstunni. Menn eru þó að skoða hvort opnist einhverjir möguleikar til þess en ég held að a.m.k. í augnablikinu sé vilji hjá stjórn og stjórnarandstöðu til að meta (Forseti hringir.) hvaða möguleikar eru þar í boði.