138. löggjafarþing — 70. fundur,  29. jan. 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[13:07]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargott svar og er alveg sammála honum í því að vissulega megi færa bæði rök með og móti slíkum breytingum. Eins og ég sagði er ég mjög ánægð með þetta frumvarp og tel það tímabært. Ráðuneytið hélt í morgun fund undir yfirskriftinni „Straumhvörf á fjármálamarkaði — eftirlit, aðhald og ábyrgð“ og fór þar yfir þær breytingar sem verið er að gera á löggjöf. Undirstofnanir þess fóru yfir þær breytingar sem verið er að gera á starfsemi til að auka virkni eftirlits og heimildir til eftirlits. Sá fundur var ánægjulegur og vakti með mér mikla von um að hægt væri að efla traust á kerfið en ég vil þá vinsamlega beina því til hæstv. ráðherra að hann hugi að því með hvaða hætti megi koma þessum nokkuð flóknu upplýsingum skilmerkilega til almennings svo við getum aftur farið (Forseti hringir.) að treysta bankakerfinu okkar.