138. löggjafarþing — 70. fundur,  29. jan. 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[13:09]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Ég hef tækifæri til að ræða þetta betur á eftir enda er málið af þeirri stærðargráðu að það er afskaplega mikilvægt að það fái málefnalega og góða umræðu í þinginu.

Ég vildi hins vegar í þessu stutta andsvari spyrja bara um einn hlut. Við erum öll sammála um að við viljum byggja upp gott og öflugt fjármálakerfi þar sem traust ríki á milli almennings, viðskiptavina og bankakerfisins. Ég er búinn að fara yfir frumvarpið og gögnin í kringum það og hlusta á hæstv. ráðherra og ég sakna þess að ekki virðist gert ráð fyrir að það sé upplýst hverjir séu eigendur fjármálafyrirtækjanna og það sé tryggt að almenningur viti hverjir eru eigendur að fjármálafyrirtækjunum. Ég spyr hæstv. ráðherra: Kemur til greina að hjá í það minnsta þeim stærri, þegar við erum komin að stærð sem nemur einhverju hlutfalli af vergri landsframleiðslu, (Forseti hringir.) verði mönnum skylt að upplýsa hverjir séu raunverulegir eigendur fjármálafyrirtækjanna?