138. löggjafarþing — 70. fundur,  29. jan. 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[13:10]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er minn skilningur að þetta sé einmitt gert með fleiri en einum hætti í frumvarpinu. Það er beinlínis gert ráð fyrir því að upplýsa þurfi betur og skýrar en gert hefur verið um eignarhald og sérstaklega tengda aðila, hvernig þeir tengjast og hverjir teljist þá einn aðili eða tengdir aðilar þegar rætt er um yfirráð yfir fjármálafyrirtækjum. Gagnsæi hvað þetta varðar ætti að verða mun meira og sérstaklega hvað það varðar hverjir fara með ráðandi hlut, hvernig þeir vinna þá saman sem tengdir aðilar. Ég tek alveg heils hugar undir með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni um nauðsyn þess, og reyndar ekki bara nauðsyn þess að upplýsa um þessi tengsl heldur einnig nauðsyn þess að hafa regluverk sem kemur í veg fyrir að þeir sem ráða fjármálafyrirtækjum geti misnotað þá aðstöðu.