138. löggjafarþing — 70. fundur,  29. jan. 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[13:12]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lít svo á að við hæstv. ráðherra séum sammála um að mikilvægt sé að það sé tryggt að fyrir liggi hverjir eru eigendur fjármálafyrirtækja. Ég sá þetta ekki í frumvarpsdrögunum en við höfum næg tækifæri til að fara yfir það á vettvangi nefndarinnar. Ef þetta er ekki í frumvarpinu mun ég beita mér fyrir því að það verði tryggt að það séu engir huldueigendur að fjármálafyrirtækjum og það liggi alveg hreint og klárt fyrir hverjir eru eigendur fjármálafyrirtækjanna.

Það er auðvitað markmið í sjálfu sér að við komum í veg fyrir að þeir hlutir sem svo sannarlega hafa orðið núna gerist aftur. Það er ekki einfalt verk og þetta er ekki í fyrsta skipti sem menn hafa farið í slíkan leiðangur. Margar þær flækjur sem við sjáum og erum að vonum ósátt við og hafa reynst okkur dýrar eru afleiðing þess að menn settu reglur til að koma í veg fyrir einhverja aðra hluti sem þóttu óeðlilegir (Forseti hringir.) á sínum tíma og örugglega voru það. Þess vegna ber okkur að vanda þetta verk og ég lít svo á að við hæstv. ráðherra séum sammála um nauðsyn þessa.