138. löggjafarþing — 70. fundur,  29. jan. 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[13:15]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að í þessari grein sem hv. þm. Magnús Orri Schram vísar til er rætt sérstaklega um tímamörk. En ég vek athygli á því að í annarri grein er jafnframt tekið á því hvaða starfsemi er eðlilegt að bankar geti farið með, sem er þá ekki liður í eðlilegri bankastarfsemi. Þar er auðvitað sérstaklega verið að vísa til þess að það er óeðlilegt að bankar sinni, nema þá um takmarkað skeið vegna sérstakra aðstæðna, rekstri sem á ekkert skylt við bankastarfsemi.

Jafnframt má vekja athygli á því að í samkeppnislögum eru einnig ákvæði sem nýtast í þessu skyni og nýlegur úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála hnykkti á því sem verður að hafa hér til hliðsjónar. Í frumvarpinu er ekki sérstaklega tekið á því hvernig fjármálafyrirtæki ættu að selja þær eignir sem þau fá en Fjármálaeftirlitið hefur vitaskuld talsvert um það að segja (Forseti hringir.) í þeirri löggjöf sem gildir nú þegar.