138. löggjafarþing — 70. fundur,  29. jan. 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[13:17]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða mjög stórt mál, breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki. Við erum að ræða það í kjölfar þess að fyrir rúmlega ári varð hrun í íslenska bankakerfinu og hrun á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Það er skemmst frá því að segja að það hlýtur að vera markmið okkar allra að koma í veg fyrir að slíkt geti gerst aftur. Það er afskaplega mikilvægt í þessu samhengi að við skoðum hvað fór miður og hvað við getum lært af því.

Það sem ég held að komi fyrst upp í hugann þegar maður lítur til baka er að ábyrgð okkar var mikil þegar við fórum í þá vegferð. Það má í rauninni segja að það hafi verið fráleit hugmynd að taka gagnrýnislítið upp regluverk sem hannað var hjá Evrópusambandinu og er í rauninni hannað fyrir lönd sem eru bæði miklu stærri en við og ólík okkur á margan hátt, sérstaklega þegar kemur að þessum þáttum. Ef maður setur það í það samhengi getur maður spurt: Hverjum datt í hug að koma fjármálakerfi og umgjörð utan um það sem er hannað fyrir 80 milljóna manna þjóð í Mið-Evrópu fyrir á Íslandi þar sem við búum norður í Atlantshafi, rúmlega 300.000 manna þjóð?

Við höfum þurft að borga fyrir það að hafa verið svo gagnrýnislítil á þessar innleiðingar. Stærsti einstaki reikningurinn — þó að hann sé ekki uppgerður enn og við skulum vona að við komumst eins vel frá honum og mögulegt er, og við getum það ef við stöndum saman — er án nokkurs vafa Icesave-reikningurinn sem er bein afleiðing af gölluðu evrópsku reglugerðarverki. Það er alveg nákvæmlega sama hvernig menn leggja það upp, það er staðreynd sem ég held að nokkurn veginn flestir hafi viðurkennt, m.a. hæstv. forsætisráðherra, og ég held að eini maðurinn sem hafi ekki viðurkennt það, í það minnsta hér í þinginu, sé hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra.

Það er því afskaplega mikilvægt þegar við förum yfir þessa þætti að við lítum þá mjög gagnrýnum augum. Það er ekki nóg, virðulegi forseti, að geta sagt að þetta sé gert með einhverjum hætti einhvers staðar annars staðar, sama hvort það eru vinir okkar í Evrópu eða annars staðar. Menn hafa farið ansi illa á því að afgreiða hlutina með þeim hætti. Ég ætla að taka fyrir nokkra þætti, örugglega ekki tæmandi, en það er mikilvægt að fara yfir þá og koma í veg fyrir þá í nýju fjármálakerfi. Til dæmis var kaupaukakerfið eða hvatakerfið fullkomlega galið en var alltaf réttlætt með því að þetta væri eins annars staðar. Ég þekki lögmann sem vann fyrir Kaupþing banka og skrifaði þeim, 2004 held ég að það hafi verið, og varaði við þessari þróun. Svarið sem hann fékk var mjög einfalt, að þetta væri gert alls staðar annars staðar með þessum hætti.

Við munum þegar þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddsson tók inneign sína út úr Búnaðarbankanum, ef ég man rétt, vegna slíkra hluta þegar það var búið að sameina bankann Kaupþingi, ég held að ég muni þetta nokkurn veginn rétt, og menn settu þetta kaupaukakerfi af stað, þetta svokallaða hvatakerfi. Hann fékk ekki mikinn stuðning, hvorki frá eftirlitsaðilum, fjölmiðlum né öðrum þeim sem um málið fjalla, allra síst frá þáverandi stjórnarandstöðu.

Ég held að ég fari rétt með, í það minnsta fékk ég upplýsingar um það á einhverjum tímapunkti, að þetta hvatakerfi hafi komið til á sínum tíma í Bandaríkjunum vegna þess að menn vildu koma í veg fyrir of háar launagreiðslur í bönkunum. Þegar menn voru búnir að setja einhvers konar reglur á það fóru menn að þróa þetta kaupaukakerfi með skelfilegum afleiðingum. Ég held að hámarkið í vitleysunni hvað þetta varðar hafi verið þegar menn fengu sérstakar prósentur eftir því hvað þeir lánuðu mikið til viðskiptavina. Það var hreinlega hvati hjá starfsmönnum banka að lána hærri upphæðir en lægri og hefur það örugglega verið ein af ástæðunum fyrir því hversu illa fór.

Á sama hátt vísuðu menn iðulega til mjög stutts tíma í rekstri fyrirtækja. Forsvarsmenn fyrirtækja hafa ansi mikið getað, sérstaklega þegar um styttri tíma er að ræða, ráðið því hver afkoman er en það er erfiðara þegar litið er til lengri tíma eins og 10–20 ára sem ætti að vera sá grundvöllur ef menn á annað borð vilja hafa hvata fyrir starfsmenn og að þeir fái að njóta uppbyggingar viðkomandi fyrirtækis. Það er einn þátturinn, við þurfum að koma í veg fyrir að slík slys verði.

Við þurfum líka að tryggja gagnsæi. Ég heyrði á hæstv. ráðherra áðan að hann er sammála mér í því og ég ætla að það sé góð samstaða um það.

Eitt er eignarhaldið. Af mjög mörgum ástæðum er ekki líðandi að eitthvert huldufólk geti verið eigendur fjármálafyrirtækja. Huldufólk er ágætt, virðulegi forseti, en það á ekki að eiga fjármálafyrirtæki, annars á það a.m.k. að koma úr steinum sínum og upplýsa það. Þegar talað er um gagnsæi er líka mjög mikilvægt að viðskipti séu með þeim hætti að fólk skilji þau. Allar viðvörunarbjöllur ættu að klingja þegar fjármálavörur eru þannig að það er erfitt að útskýra þær og að bara allra helstu sérfræðingar skilji þær hugsanlega. Ég hef að vísu haft þá sérfræðinga grunaða um að þeir hafi oft átt í erfiðleikum með að átta sig á hvað var á ferðinni. Einfaldleiki er markmið í sjálfu sér og þegar menn flækja viðskipti mjög mikið á þessum markaði liggur oftar en ekki eitthvað annað undir en það að menn séu að búa til vöru sem hafi þau markmið sem slíkar vörur hafa almennt.

Í þriðja lagi varðandi viðskipti tengdra aðila horfum við þar upp á hvað það getur haft slæmar afleiðingar þegar við sjáum krosseignatengsl og lán til tengdra aðila. Það hefur verið ansi mikil umræða um þetta undanfarin ár, en því miður lítið annað en umræða. Ég held að þessar lánabækur sem við höfum fengið að sjá núna hafi komið okkur flestum á óvart, þ.e. að sjá hvað menn gengu langt, eins og t.d. í því að lána einstaklingum eða aðilum til að kaupa í viðkomandi fjármálafyrirtækjum og einu veðin voru síðan bréfin. Ég var að velta fyrir mér hvenær þessi þróun hefði hafist og hvenær þetta hafi orðið jafnviðamikið og raun ber vitni. Ætli fyrstu skrefin hafi ekki verið stigin þegar menn keyptu stofnfé í sparisjóðum? Það voru kannski tiltölulega lágar upphæðir hjá hverjum og einum en þróaðist síðan í þessar risafjárhæðir sem við sáum. Hvort sem það eru litlar fjárhæðir eða stórar get ég ekki séð rökin fyrir því að viðkomandi lánastofnun láni aðilum til að kaupa í lánastofnuninni og taki veð í viðkomandi bréfi. Ég verð hins vegar líka að viðurkenna, virðulegi forseti, að það kom mér mjög á óvart þegar ég sá þetta að eftirlitsstofnanir virðast hafa látið þetta óátalið. Það bara getur ekki annað verið, virðulegi forseti, en að þetta hafi farið fram hjá viðkomandi eftirlitsstofnun. Við sjáum líka, ef marka má fréttir, ótrúlegustu fyrirgreiðslur til eigenda bankanna og eru engin málefnaleg rök fyrir þeim.

Þetta er mjög vandmeðfarið og ég held að það sé engin spurning að í þessu máli eins og svo oft í mannkynssögunni eru menn með einhverja ofurtrú á hlutum, í þessu tilfelli eftirlitsaðilum, og það er nokkuð sem ber að varast. Ég tel að flestir aðilar sem hafa fylgst með málum á Íslandi hafi trúað því að með því að byggja upp þetta eftirlitskerfi samviskusamlega eins og upp var lagt með af Evrópusambandinu, og svo sannarlega gerðum við það, hlyti það að virka. Eftir á að hyggja kemst maður að þeirri niðurstöðu að þetta eftirlitskerfi virðist ekki hafa tekið á einu einasta stóru máli. Það hefur oft verið nefnt að vöxturinn hafi verið svo hraður að þau hafi ekki haft yfirsýn yfir þetta allt saman, það má vera, en þetta eru svo mörg mál, þetta eru svo mörg stór mál að maður mundi ætla að eitthvert eitt mál í það minnsta hefði verið tekið í eftirlitskerfinu. Svo var ekki.

Ég minnist þess, virðulegi forseti, þegar einn stjórnarmaður í FL Group hélt ræðu á aðalfundi sem var í öllum fjölmiðlum. Þar var mjög hörð gagnrýni á stjórn viðkomandi fyrirtækis. Ég spurði viðkomandi einstakling fyrir nokkru hversu margir eftirlitsaðilar hefðu haft samband við hana. Það var enginn, ekki neinn. Nú er þetta stundum þess eðlis, og maður sér það þegar maður lítur til baka, að menn hafa augljóslega reynt að fela hluti og gera eitthvað til að komast hjá því að þeir upplýstust. Í þessu tilfelli var þetta fyrir opnum tjöldum. Mjög mörg þessara mála sem eru í umræðunni núna fóru hljótt en menn eru sem betur fer að skoða þau. Við erum með í gangi til að skoða þetta stærstu rannsókn Íslandssögunnar og þótt víðar væri leitað, en þetta einstaka mál var fyrir augunum á aðilum og augljóslega var sú ranga ályktun dregin að eftirlitsaðilarnir mundu skoða svona mál þegar þau kæmu upp. Ég hef hins vegar heyrt um mörg smámál sem eftirlitsaðilar skoðuðu. Auðvitað er mikilvægt að skoða þau en þessi mál sem eru uppi núna eru hins vegar af þeirri stærðargráðu að maður mundi ætla að það hefði verið æskilegt að eftirlitsaðilarnir hefðu skoðað þau.

Eftirlitsaðilar eru fleiri en þær opinberu stofnanir sem við settum á laggirnar. Við erum líka með endurskoðendur og hluthafafundi og þó að við getum ekki með lögum skyldað hluthafa til að haga sér með einum eða öðrum hætti held ég að við verðum að skoða þátt endurskoðenda í heildarsamhengi, hlutverk þeirra og hvort eitthvað sé rangt í þeirri uppbyggingu sem við erum með núna.

Það var mikil umræða í Bandaríkjunum um að það væri mjög óeðlilegt að stóru endurskoðendafyrirtækin væru t.d. með ráðgjafastarfsemi sér við hlið, það væru augljóslega hagsmunir hjá þeim að fá viðskiptavini sína til að versla við sig á fleiri en einu sviði sem drægi úr hvatanum til að endurskoðendur mundu í rauninni gegna því hlutverki sem þeir eiga að gera. Ýmis mál þeim tengd komu upp fyrir nokkrum árum í Bandaríkjunum. Þetta er nokkuð sem við þurfum að líta til hérna líka. Endurskoðendur gegna alveg gríðarlega mikilvægu hlutverki og það hlutverk verður að vera hafið yfir allan vafa.

Í þessari stuttu ræðu get ég bara tæpt á málum en ég fer fram á það við hæstv. ráðherra að hann beiti sér ekki fyrir því, eins og hann hefur gert, því miður, eftir að hann tók við, að málin séu keyrð á einhverjum ógnarhraða í gegnum þingið. Við erum búin að gera mörg mistök eftir hrun. Við erum með sparisjóðalög sem voru keyrð í gegn á nokkrum dögum þvert gegn ráðleggingum t.d. Fjármálaeftirlitsins með þeim rökum að það lægi svo mikið á vegna þess að það þyrfti að ganga frá fjármögnun sparisjóðanna. Það var í júní eða júlí og ekkert hefur gerst á þeim vettvangi. Eftir stendur að við erum með lög á þeim vettvangi sem eru ekki til þess fallin að höndla það umhverfi sem við viljum sjá varðandi sparisjóðina, við höfum þurft að taka upp lög eftir nokkra daga út af hraðanum og það rétt náðist að fresta hvorki meira né minna en innstæðutryggingarkerfinu nýja núna fyrir jólin. Sem betur fer var því bjargað og menn ætla að fara betur yfir það. Þetta gríðarstóra mál (Forseti hringir.) verður að fá þann tíma sem þarf ef við ætlum að gera þetta með þeim hætti sem við erum sammála um.