138. löggjafarþing — 70. fundur,  29. jan. 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[13:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki. Þetta er afskaplega mikilvæg breyting. Við höfum upplifað hrun og það hefur leitt í ljós ýmislegt sem betur má fara, töluvert margt sem betur má fara. Dagblöð hafa verið full af fréttum, ekki daglega en vikulega, um alls konar hluti, lán til stærri hluthafa, lánabækur, kaup, krosseignarhald og raðeignarhald og slíkt, þar sem peningar gátu farið í hring viðstöðulítið eða viðstöðulaust. Ég held að það sé ein meginástæðan fyrir hruninu.

Því miður virðist áhugi stjórnarliða á þessu máli lítill. Því miður, segi ég, vegna þess að þetta er stórt mál. Formenn viðskiptanefndar eru t.d. ekki viðstaddir þó að varaformaður hafi verið hér áðan. Nú veit ég ekki hvað veldur en það er mjög miður vegna þess að þetta er mjög mikilvæg umræða.

(Forseti (RR): Forseti upplýsir að formaður viðskiptanefndar er á vegum Alþingis í Strassborg.)

Allt í lagi. Þá hefði kannski mátt hafa umræðuna á einhverjum öðrum degi. Engu að síður var umræðan nánast engin þegar rætt var um innlánstryggingarkerfið hér fyrr fyrir áramót, fyrst var það framsögumaður og svo örstutt ræða. Það er mjög miður að ekki skuli vera meiri umræða um þau atriði sem við ræðum hér. Ekki er alveg útséð um það, vel getur verið að heill her af hv. þingmönnum bætist við í þessa umræðu.

Það er vel þekkt að menn breyta ekki fortíðinni þó að margir séu endalaust að reyna það, bæði með söguskýringum og öðru slíku. Menn geta hins vegar lært af fortíðinni og menn eiga að læra af fortíðinni. Þess vegna settum við í gang rannsóknarnefnd sem á að upplýsa heilmikið. Ég held að ástæða sé til þess að bíða eftir þeirri niðurstöðu áður en menn afgreiða þetta frumvarp vegna þess — og það kom líka fram að það væri mjög mikilvægt að þetta væri vel unnið — að þar munu væntanlega koma fram upplýsingar um það sem raunverulega gerðist í hruninu. Við höfum reyndar, eins og ég nefndi, heilmikið heyrt í fréttum um hitt og þetta sem á að hafa gerst, við vitum minna um krosseignarhald og raðeignarhald, dulið eignarhald, á Tortolu og víðar — þetta hefur allt komið fram í fréttum en best væri náttúrlega að fá upplýsingar úr rannsóknarskýrslunni um þessi atriði öll.

Þegar menn horfa á uppsprettu fjár þurfa menn að hafa eitt í huga. Engum peningum er ráðstafað til fjárfestingar eða annað nema einhver annar hafi sparað þá. Alltaf. Við Íslendingar höfum reyndar í fjölda ára, í áratugi, verið að ráðstafa peningum sem erlendar þjóðir hafa sparað og þess vegna höfum við verið vaxtagreiðendamegin í lífinu og borgað mikla vexti fyrir það, oftast nær raunvexti. Þess vegna halda margir hér á landi að peningar verði til úr engu en það er ekki þannig. Það þarf að spara þá og það þarf að leggja þá fyrir. Það er nú þannig með sparifé á Íslandi að það hefur beðið búsifjar miklar. Í fyrsta lagi töpuðu menn sem voru í þessum séreignarsjóðum, þeir töpuðu töluverðu, og svo hafa allir íslenskir sparifjáreigendur tapað vegna gengisfalls krónunnar, frú forseti. Lítið hefur verið talað um það þegar menn segja að fjármagnseigendur hafi allt sitt á þurru. Menn eru búnir að tapa helmingi mælt í evrum. Menn eru svo að bera það saman við innlánsreikninga í Icesave þar sem menn fengu allt greitt, þannig að þetta kemur líka inn í þá umræðu.

Eitt sem skiptir líka miklu máli, og ég nefndi hér áðan út af fjármálafyrirtækjunum — þetta er einn stærsti póstur þeirra til að lána út, það eru innlánin. Ný innlánstryggingarreglugerð Evrópusambandsins segir að hækka eigi mörkin en hún segir meira, hún segir líka að ríkisstjórnir skuli ábyrgjast innstæður eða ábyrgjast kerfið. Ég les það út úr þeirri tilskipun að það sé á þessu ríkisábyrgð og afleiðingin af því er ein, frú forseti: Ríkisbankar. Það geta ekki verið einkabankar með ríkisábyrgð á innlánum, ekki nema þeir leggi bara öll innlánin einhvers staðar fyrir.

Hinn hluti uppsprettu fjár er áhættufé, þ.e. það sem almenningur upphaflega, í einhverju formi, annaðhvort í gegnum lífeyrissjóði eða beint, kaupir hlutabréf. Sá hluti sparnaðar hefur beðið verulega hnekki þrátt fyrir að menn segi að fjármagnseigendur hafi alltaf sitt á þurru. Þó að ég hafi ekki upplýsingar um það — ég er reyndar alltaf að fara í gang með að fá upplýsingar um það, frú forseti, og það er víst ekki mikið mál — hugsa ég að svona 60–70 þúsund Íslendingar hafi tapað að meðaltali 3–4 milljónum hver. Í bönkunum þremur töpuðu 45 þúsund manns, Íslendingar, að meðaltali 3 milljónum, þannig að traustið á hlutabréfamarkaðnum er núll. Verkefni hv. Alþingis og hæstv. ríkisstjórnar er að endurbyggja það traust. Þetta frumvarp dugar ekki til, ég er alveg sannfærður um að það dugar ekki til.

Það sem gerðist í hruninu var það að menn voru með gagnkvæmt eignarhald. Ég nefndi það reyndar 2007 í efnahags- og skattanefnd, sem ég veitti þá forstöðu, hélt sérstakan fund um gagnkvæmt eignarhald eða krosseignarhald, og sagði hvað gerist í því, ef völdin eru tekin frá upphaflegum hluthöfum og færð til stjórna fyrirtækjanna, og þetta er alþjóðlegt vandamál, þetta er ekki íslenskt vandamál.

Annað sem gerðist var það að menn voru að lána stærstu hluthöfunum, ekki öllum hluthöfunum, þ.e. litlu hluthafarnir voru hlunnfarnir, og þeir sátu líka uppi með allt tjónið, frú forseti. Þeir högnuðust ekki á þessu, þeir fengu ekki lánin en þeir sátu uppi með tjónið, litlu hluthafarnir, og svo þjóðin í kjölfarið. Ef við ætlum að byggja upp traust á hlutabréfamarkaðnum þarf að ganga miklu lengra en þetta frumvarp gerir ráð fyrir.

Þetta frumvarp bannar ekki — og ég sé bara strax heilmikið af möguleikum til að fara fram hjá því — hvað þýðir að það séu bein eignatengsl, þ.e. ef menn eiga minna en 20% o.s.frv., að menn séu tengdir? Það er enginn vandi að fara fram hjá þessu, ekki nokkur einasti. Menn munu vera komnir með það bara daginn eftir, 19,9% eignarhluti er afskaplega algengur í atvinnulífinu. Af hverju skyldi það nú vera? Af því að þeir eru ótengdir, menn fara þannig fram hjá þessu.

Nei, ég held að það þurfi að ganga miklu lengra. Þess vegna spurði ég að því hvort menn hefðu skoðað frumvarp sem ég flutti um gagnsæ hlutafélög þar sem ég vil búa til nýjan flokk af hlutabréfum. Ég held að það sé nauðsynlegt að búa til nýjan flokk vegna þess að við erum í tengslum við útlönd og alþjóðlegar reglur um hlutafélög þurfa að gilda hér á landi þar á meðal um krosseignarhald sem gildir úti um allan heim, sérstaklega í Japan og Bandaríkjunum, mjög mikið, útbreitt og hættulegt. Það myndast alveg gífurleg samtenging í öllu atvinnulífinu sem er mjög óæskileg upp á áhættudreifingu. Ég held því að það sé mikilvægt að búa til nýjan flokk sem almenningur mundi treysta, þ.e. ef eignarhaldið er gagnsætt upp úr og niður úr og það sé hreinlega bannað að lána eigendum fyrirtækjanna, sem eru hlutafélög — þeim eigendum sem eru hlutafélög, ekki einstaklingum, það má lána þeim — og það sé bannað að kaupa í eigendum sínum, þ.e. hlutafélögum. Þetta tel ég bráðnauðsynlegt til þess að koma í veg fyrir þær hræðilegu fréttir sem við erum að fá núna um hvernig þetta var rekið allt saman. Ég sé ekki að komið sé í veg fyrir það með þessu frumvarpi, ég sé það ekki. Þetta þyrfti hv. nefnd náttúrlega að fara í gegnum.

Ég hygg að ég muni koma með breytingartillögu við frumvarpið um að settur verði upp sérflokkur. Við erum með sérflokk á Íslandi sem heitir opinber hlutafélög. Það er sérflokkur af hlutabréfum sem eru alfarið í eigu opinberra aðila. Þar eru alls konar ákvæði um hvernig eigi að boða hluthafafund og fjölmiðlar eigi rétt og annað slíkt. Eitt af þeim er t.d. Ríkisútvarpið ohf., ég held m.a.s. að það sé með aðalfund núna, sem þingmenn mega þá mæta á. Ég tel að það væri ráð að koma með nýjan flokk sem héti gagnsæ hlutafélög þar sem væru mjög skörp ákvæði um t.d. ábyrgð endurskoðenda — frú forseti, ábyrgð endurskoðenda. Bankarnir sýndu dúndurhagnað, mjög góða afkomu, mjög sterka eiginfjárstöðu rétt fyrir hrun, fengu feiknagott mat hjá matsfyrirtækjum, Triple A heitir það á ensku, AAA +. Staðan sýndist vera mjög góð og samt var hún svona viðkvæm eða titrandi. Það mátti ekkert við þetta koma þá hrundi það. Það var komið pínulítið við það með falli Lehmans bræðra og allt hrundi. Þetta var allt samtengt, þetta var allt saman yfirveðsett með gífurlegum lánveitingum með vafasömum veðum sem höfðu gildi, höfðu verðmæti, vegna þess að eitthvað annað hafði verðmæti.

Ég held að Íslendingar ættu að sýna fordæmi í því að vera með sérflokk sem væri „gagnsæ hlutafélög“, þar sem endurskoðendur bæru virkilega ábyrgð á því að farið væri að reglum, og sýna að slíkir flokkar gætu hugsanlega búið til traust hins almenna fjárfestis á því að fjárfesta í atvinnulífinu. En án þess, frú forseti, verður engin atvinnusköpun á Íslandi. Atvinnusköpunin gerist þannig að einhver vill fjárfesta og einhver vill lána. Ef fyrirtæki fá hvorki fjárfestingar, áhættufé né lánsfé geta þau lokað. Þá eru engar framkvæmdir og engin nýsköpun og störf og annað slíkt. Þetta tengist atvinnulífinu sem hæstv. ríkisstjórn ræðst nú gegn með því að hækka skatta á fjármagnstekjur og hækka skatta eins og hún mögulega getur á fyrirtæki úti um allt. Það er eins og henni sé illa við það að fyrirtæki skapi atvinnu. Ég hef reyndar ekki trú á því, þetta er bara óvart, menn átta sig ekki á því hvað þeir eru að gera.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að gerðar verði breytingar á frumvarpinu þannig að traustið komi aftur. Án trausts hins venjulega borgara á því að fjárfesta í hlutabréfum verður engin fjárfesting. Það verður engin fjárfesting og enginn vöxtur og engin atvinnusköpun. Mér finnst frumvarpið því miður ekki ganga nægilega langt í því að búa til þetta traust. Ekki er nóg að vera með þau ákvæði sem hér eru, mörg hver til bóta en þau ganga bara ekki nógu langt.

Ég mundi t.d. ekki treysta skilgreiningu á beinum eignartengslum, eins og stendur hér í a-lið 1. gr., með leyfi frú forseta: „Bein eignartengsl eða bein yfirráð yfir allt að 20% af hlutafé eða atkvæðavægi fyrirtækis.“

Þetta segir mér ekki nægilega mikið um það að ekki séu bein eignartengsl annars staðar. Það að menn séu giftir eða synir eða eitthvað slíkt, það eru ekki eignartengsl. Það er frekar að menn séu saman í bridge eða saman í golfi eða eitthvað slíkt, eða ferðist saman í sömu einkaþotunni, það segir mér miklu meira um bein eignartengsl, að menn séu tengdir, náin tengsl.

Svo eru skuldatengslin náttúrlega alveg sérkapítuli, frú forseti. Ef þú vilt virkilega hafa tök á einhverjum manni þá lánarðu honum nógu mikið af peningum þannig að hann geti ekki borgað. Þá hefurðu virkilega tök á honum, getur sett hann í stjórn hvaða fyrirtækis sem er og hann gerir nákvæmlega það sem þú segir honum að gera. Ef hann skuldar þér nógu mikið og vextirnir eru það miklir að hann ræður ekki við þá, þú ert búinn að fá hann til að kaupa íbúð með sundlaug og tvo jeppa eða þrjá og lánar honum nógu mikið, þá er hann gjörsamlega háður þér og gerir það sem þú segir. En það sést hvergi nokkurs staðar á neinum pappír að þið séuð tengdir.

Ég held að menn þurfi að fara miklu meira og betur í þetta, það þurfa að verða miklu meiri umræður um þetta mál. Því miður er tíma mínum lokið núna en ég mun væntanlega flytja breytingartillögu við þetta frumvarp um að taka upp sérflokk fyrirtækja sem heiti þá gagnsæ hlutafélög, eitthvað sem almenningur mundi hugsanlega treysta á eftir kannski tvö, þrjú, fjögur eða tuttugu ár.