138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

dagskrá fundarins.

[15:08]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þær athugasemdir sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir viðhafði. Náttúruverndaráætlun hefur verið sett á dagskrá þingsins. Hún var, eins og menn muna, rifin út úr nefnd í sumar — órædd — að nýju kom hún fyrir þingið í haust og þá mæltist m.a. hæstv. umhverfisráðherra til þess að málið fengi ítarlega og vandaða umfjöllun í umhverfisnefnd. Svo hefur ekki verið og það er því til skammar að sjá þau vinnubrögð, frú forseti, að formaður nefndarinnar skuli leyfa sér að viðhafa þessi vinnubrögð í þessu mikilvæga máli. Ég spyr mig hvort það sé virkilega svo að núverandi flokkar sem skipa ríkisstjórnina beri ekki meiri virðingu fyrir umhverfismálum en svo að þeim finnist í lagi að rífa málin hálfköruð út úr nefnd án þess að eiga samráð við nokkurn mann og án þess að kalla þá hagsmunaaðila sem hafa gert viðamiklar athugasemdir við þessa áætlun á fund nefndarinnar.