138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

dagskrá fundarins.

[15:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birni Vali Gíslasyni fyrir innlegg hans í þessa umræðu um fundarstjórn varðandi hvaða mál eiga að vera á dagskrá, hann er vonandi að hlusta. Það sem vakti mesta athygli mína er þessi upptalning hans á málefnum sem átti að vera að ræða hér fyrir rúmu ári síðan. Ég velti því fyrir mér, hv. þingmaður, hvar sem þú ert, eins og segir í sögunni: Hvað hefur breyst, frú forseti? Það er þess vegna sem við erum að ræða þessa dagskrá, frú forseti, að það hefur ekkert gerst á þessu ári sem þessi ríkisstjórn er búin að vera tvisvar við völd í landinu. Það hefur ekkert gerst, ekki neitt. Þess vegna erum við að tala um að þessi dagskrá sé ekki okkur bjóðandi og taka þurfi fyrir málefni heimila og fyrirtækja.