138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

skuldavandi heimilanna.

[15:39]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Við höfum á síðustu vikum og mánuðum verið að vinna að því að koma af stað því ferli sem við hófum í ágætri sátt allra flokka í október þegar gengið var frá lögum nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins. Við höfum verið að koma af stað með bönkum og eignarlegum fyrirtækjum því ferli sem þar var lagt upp með um sértæka skuldaaðlögun sem gerir ráð fyrir meðferð erfiðra skuldamála utan dómskerfisins þannig að ekki þurfi að koma til þess að fólk þurfi að fara í gegnum tímafrekt opinbert ferli til að fá úrlausn skuldamála sinna, heldur sé hægt að ganga frá því í frjálsum samningum við kröfuhafa. Þetta kerfi hefur verið að komast af stað og nokkur mál eru að klárast í gegnum hina sértæku skuldaaðlögun. Þetta hefur tekið sinn tíma fyrir bankana og kröfuhafa að stilla saman strengi í þessu efni, enda er það náttúrlega svo að við erum að reyna að kenna kröfuhöfum og bönkum að skipta um hest í miðri á. Við erum í rauninni að reyna að fá banka til að nálgast málefni skuldara út frá allt öðrum viðmiðum en hingað til hefur verið regla í landinu. Hingað til hefur það verið regla frekar en ekki, að menn eltu skuldara út yfir gröf og dauða eins lengi og mögulegt var og helst lengur en svo. En núna er sem sagt verið að leggja upp með það verklag að menn horfist í augu við raunverulega greiðslugetu skuldara og vinni málin þannig áður en í óefni er komið. Við bindum því vonir við að þetta úrræði muni gegna sínu hlutverki.

Að öðru leyti er verið að vinna að fjölbreyttum úrræðum á vegum nokkurra ráðuneyta og einkanlega dómsmálaráðuneytisins sem hefur verið að horfa á bæði endurmat á greiðsluaðlögunarlögunum og eins réttarstöðu skuldara við nauðungarsölur.