138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

aðgerðir í efnahagsmálum.

[15:43]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Óhætt er að segja að þegar kemur að efnahagsmálum lifum við á óvissutímum. Ríkisstjórnin hefur ekki gert neinar tilraunir til að minnka þá óvissu. Við sjáum það til að mynda á aðgerðum í sjávarútvegsmálum þar sem hent er inn alls konar hugmyndum og jafnvel frumvörpum um það hvernig auka megi óvissu þar, litið fram hjá sáttanefnd í sjávarútvegsmálum o.s.frv. Við sjáum þetta í umhverfismálum þar sem aðilar geta langt í frá gengið að því vísu hvernig meðferð mála verði. Við sjáum þetta í nær stjórnlausu bankakerfi þar sem vaxtahækkanir auka á óvissu hjá fyrirtækjum og auka á óvissu um lánasöfn, gæði lánasafna bankanna, og ekki síst sjáum við þetta í skattamálum. Á haustdögum voru kynntir til sögunnar nýir skattar sem settu í gang óvissu fyrir stórorkunotendur. Jafnframt sáum við víðtækar skattkerfisbreytingar. Á skattadegi Deloitte sagði hæstv. fjármálaráðherra einfaldlega eða varð að orði þegar hann var spurður út í skattaráðstafanir ríkisstjórnarinnar: „You ain't seen nothing yet.“ Svona að gefnu tilefni fyrir forseta, þýðir það: Þér hafið ekki séð neitt enn þá. Er hugmyndin að það sé jákvætt nú á tímum að auka á óvissuna eða er þetta merki um skipulagsleysið sem einkennir störf ríkisstjórnarinnar?