138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

skipan skilanefnda bankanna.

[15:50]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í haust lagði ég fram fyrirspurn til skriflegs svars til efnahags- og viðskiptaráðherra um hvort Fjármálaeftirlitið hefði sett reglur um skipan skilanefnda stóru bankanna þriggja með tilliti til jafnréttislaga og hvort Fjármálaeftirlitið hefði beint einhverjum tilmælum til þessara aðila um hvernig beri að fara að jafnréttislögum. Þá var spurt hverjir hefðu verið skipaðir í stjórnir þeirra fyrirtækja sem skilanefndirnar hafa tekið yfir.

Af ófullburða svörum við þeirri spurningu kemur fram að nær eingöngu karlar hafi verið skipaðir í stjórnir fyrirtækja af hálfu skilanefndanna þó að skilanefnd Glitnis komi skár út en hinar. Fram kemur í svarinu að Fjármálaeftirlitið hafi ekki sett reglur um skipan skilanefnda stóru bankanna þriggja, enda hafi það borið brátt að, en Fjármálaeftirlitið hefur ekki reynt að leiðrétta þá kynjaskekkju sem skipan skilanefnda endurspeglar með því að beina tilmælum til þeirra um hvernig beri að fara að jafnréttislögum.

Í landinu gilda lög um jafnan rétt kvenna og karla þar sem m.a. er að finna ákvæði um skipan í nefndir, stjórnir og ráð af hálfu ríkisins. Í lögum um fjármálafyrirtæki og neyðarlögunum er ekki veitt undanþága frá þeim ákvæðum jafnréttislaga.

Ég vil því spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hvort hann telji það réttan skilning hjá Fjármálaeftirlitinu að stofnuninni beri ekki að taka tillit til ákvæða jafnréttislaga við framkvæmd valdheimilda sem stofnunin hefur samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.

Ég tel jafnframt rétt að spyrja þeirrar spurningar hvort ráðherra telji rétt að líta svo á að þeim aðilum, í þessum tilvikum skilanefndunum, sem Fjármálaeftirlitið hefur falið framkvæmd ákveðinna valdheimilda, verði að sama skapi gert að fara að jafnréttislögum.