138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

skipan skilanefnda bankanna.

[15:52]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Það liggur í hlutarins eðli að þeir aðilar sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir nefndi, Fjármáleftirlitið og skilanefndir og e.t.v. fleiri, eru ekki undanþegnir jafnréttislögum frekar en aðrir þegnar eða stofnanir þessa lands. Ég verð líka að taka undir með hv. þingmanni að verulegu leyti hvað það varðar, mér finnst að það hafi því miður ekki tekist nógu vel þarna í öllum tilvikum. Stundum hefur reyndar verið gengið kannski helst til langt í hina áttina t.d. þegar í stjórn eins bankans voru eingöngu skipaðar konur, sem átti þá kannski að bæta upp hallann annars staðar, en það er ekki skynsamleg leið til að taka á kynjahallanum að fylla sum hólf bara með konum og önnur bara með körlum.

Ég tel að við þurfum að halda vöku okkar í þessum málum. Auðvitað var það svo í október 2008 að þá gekk mikið á mjög hratt og er kannski ekki skrýtið þótt eitthvað hafi þurft undan að láta þá. En núna er komin aðeins meiri ró á og eigum við vitaskuld að vanda okkur sérstaklega hvað þetta varðar sem endranær. Ráðuneyti það sem ég hef yfir að ráða hefur gætt þess mjög sérstaklega í skipunum stjórna og nefnda að hafa eftir því sem hægt er jöfn hlutföll karla og kvenna og hefur að því er ég tel rétt munað tekist það nánast alltaf ef ekki alltaf. Við getum auðvitað reynt að beita okkur fyrir því að hið sama gerist innan bankakerfisins þótt við höfum ekki beint boðvald yfir hvorki skilanefndum né bankastjórnum og séum auðvitað ekki það ráðuneyti sem fer með jafnréttismál. En að því marki sem við getum haft áhrif á hvernig þessum málum er skipað, er alveg klárt að við tökum undir þau sjónarmið sem hv. þingmaður reifaði og teljum raunar að það sé öllum í hag, ekki síst þeim sem eiga mikið undir því að vel takist til með rekstur þessara fyrirtækja, að stjórnir þeirra séu skipaðar að (Forseti hringir.) sem jöfnustum hlutföllum körlum og konum.