138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

skipulagsmál og atvinnuuppbygging.

[15:59]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum ansi umfangsmikla fyrirspurn sem varðar bara, held ég, atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar og landið og miðin. Hér féllu ýmis brigsl um það að verk þeirrar sem hér stendur snúist fyrst og fremst um seinagang og ég get ekki annað en brugðist við því.

Það er staðreynd að í orðaskiptum manna á milli hér áður um náttúruverndaráætlun, kemur fram að menn sem skipa sér til hægri í stjórnmálum — og hafa framsóknarmenn ekki endilega verið þar í þessum málaflokki — hafa litið á umhverfis- og náttúruverndarmál sem hraðahindrun á vegi framkvæmdaraðila og þeirra sem hafa ætlað að fara fram gegn umhverfi og náttúru á hverjum tíma. (Gripið fram í: Rangt.) Hins vegar er það svo, ágætri stjórnarandstöðu til upprifjunar, að nú hefur orðið breyting á ríkisstjórn sem þýðir það að við munum ekki hika við að hugsa lengra fram í tímann og taka hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar í okkar þjónustu.

Það er rétt sem hér kom fram að á föstudaginn var sendi ég bréf til sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps og sveitarstjórnar Flóahrepps að því er varðar skipulagið þar og væri ánægjulegt að geta átt orðastað við þingmanninn nánar um þá staðreynd að niðurstaða ráðuneytisins er klár, að gerð beggja þessara skipulagstillagna hafi ekki verið að lögum, þ.e. sveitarfélögin gerðu samning við Landsvirkjun um greiðslu kostnaðar en ákvæði laganna gera ráð fyrir að kostnaður sé aðeins greiddur úr viðkomandi sveitarsjóði (Forseti hringir.) eða úr skipulagssjóði. Nú er komið að því að vinna þetta almennilega.