138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

skipulagsmál og atvinnuuppbygging.

[16:01]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin eins langt og þau náðu. Ég ætlaðist kannski ekki til þess að hún færi hér í löngu máli með stefnu í skuldamálum heimila og atvinnu en ég ætlaðist kannski til þess að það kæmi fram hver væri stefnan í atvinnumálum því að ef mál liggja með þessum hætti svona lengi inni í ráðuneytunum getur enginn brugðist við, ekki sveitarfélögin. Ég er undrandi yfir því að fyrrverandi varaformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga skuli ekki virða sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna meira því að ef neitunin hefði komið strax á vordögum, eftir eðlilegan umhugsunartíma, þrjá mánuði eða tvo, sem væri alveg meira en nóg, hefðu sveitarfélögin getað brugðist við og lagt fram nýjar áætlanir og einhver gangur væri kominn í málin.

Ég vil bara minna á — og ég veit að hæstv. ráðherra veit það — að til að mynda aðalskipulag í Flóahreppi hefur verið upp í loft m.a. vegna sameiningar og slíkra mála. Það hefur verið sérstök undanþága úr ráðuneytinu sem rann út núna um síðustu áramót. Það var ekki hægt að gera nokkurn skapaðan hlut öðruvísi en með leyfi ráðherra og allan janúar var þar af leiðandi ekki hægt að gera neitt og öll mál upp í loft. (Forseti hringir.)

Af hverju var ekki búið að ganga frá þessu síðasta vor þannig að sveitarfélögin hefðu getað brugðist við með eðlilegum hætti og framkvæmdaraðilar. Það er ekki stefna, það er seinagangur.