138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[16:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsögu hennar, hv. þingmaður þekkir þessi mál mjög vel. Ég þekki heldur ekki hv. þingmann að öðru en að vilja vinna með fólki og reyna að ná sátt þar sem þess er einhver kostur. Ef það eru einhver mál sem er skynsamlegt að fara vel yfir og reyna að ná sem mestri sátt um eru það mál eins og þetta. Ég held að fá mál séu þess eðlis að það borgi sig ekki að eyða svolitlum tíma til að ná sátt og af lokaorðum hv. þingmanns fannst mér hv. þingmaður tala eins og það hefði verið gert.

En því fer víðs fjarri og það kemur mjög skýrt fram í nefndaráliti minni hlutans og ég man vel eftir því þegar þetta var rifið aftur út úr nefnd í miklu ósætti. Með leyfi forseta, þá segir í nefndaráliti minni hlutans:

„Minni hlutinn telur óviðunandi að engir hagsmunaaðilar skuli hafa verið kallaðir á fund nefndarinnar þrátt fyrir fjölmargar umsagnir og margs konar athugasemdir í þeim umsögnum sem rétt hefði verið að fjalla um og fá nánari skýringar á.

Að mati minni hlutans er ástæðulaust að taka öll mál út úr nefndum þingsins í ósætti og telur minni hlutinn dapurlegt að ekki sé hægt að standa við fögur fyrirheit, fylgja eftir vilja umhverfisráðherra og fjalla ítarlega um málið í umhverfisnefnd. Mikilvægt er að Alþingi leiti leiða til að skapa sem breiðasta sátt um efni náttúruverndaráætlunar.“

Ég spyr hv. þingmann: Af hverju voru vinnubrögðin með þessum hætti? Hvað mælir með því að ósætti sé skapað? Í flestum þeim málum sem er ósætti um núna hefði örugglega verið hægt að ná niðurstöðu og fara betur yfir það. Ég spyr í mestu vinsemd vegna þess að ég furða mig á þessu: Af hverju er þessi leið farin?