138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[16:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst um ágreininginn og ósættið. Við berum auðvitað öll, hv. þingmenn, jafnmikla ábyrgð á því hvort sem við erum í meiri hluta eða minni hluta að reyna að vinna hér og hafa samráð og samvinnu hvert við annað og að reyna að klára mál í eins mikilli sátt og hægt er. Við vitum öll að það er þannig og stundum tekst og stundum tekst það ekki af alls konar ástæðum.

Náttúruverndaráætlun ber að leggja fram lögum samkvæmt, samkvæmt náttúruverndarlögum eins og fram hefur komið. Við gerð þessarar áætlunar hófst samráð miklu fyrr við hagsmunaaðila en við gerð þeirrar fyrstu. Þó viljum við í nefndinni taka skýrt fram að það má gera enn betur og það þarf að gera enn betur og það kemur skýrt fram í nefndaráliti meiri hlutans og ég veit að það stendur til. Í raun var fyrsta náttúruverndaráætlunin, og það má líka segja um margar af þeim friðlýsingum sem ráðist var í fyrir áratugum jafnvel, á sjöunda, áttunda og níunda áratug síðustu aldar, að þar fóru menn fram með kannski eitthvað sem líktist frekar óskalistum en vísindalegum grunduðum ákvörðunum um friðlýsingar. Það hefur að mörgu leyti verið við ramman reip að draga að vinda ofan af því orðspori friðlýsinga sem þær fengu á sig við þær aðstæður. Það hefur verið reynt. Ég ætla ekki að halda því fram að hér hafi fullkomlega í einu og öllu verið rétt staðið að málum en við skulum ekki gleyma því, frú forseti, að þetta er viljayfirlýsing. Hér er byggt á vísindalegum aðferðum og síðan mun þurfa að ná samkomulagi um friðlýsingarnar. Ef það næst þá næst það ef það næst ekki (Forseti hringir.) nær það ekki lengra.