138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[16:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil mótmæla því að nefndin hafi ekki unnið í þeim anda sem hæstv. ráðherra talaði um á sumarþinginu vænti ég. Það var einfaldlega eins og ég reyndi að skýra út áðan, það þurfti ákveðið mat að fara af stað sem á annan veginn ræðst af lögbundinni skyldu þingsins, hæstv. ráðherra að leggja fram náttúruverndaráætlun og þingsins að sjá til þess að hún sé í gildi og rúllandi, ef þannig má að orði komast, frú forseti, og svo þess að tillögurnar sem eru auðvitað byggðar á vísindalegum grunni og það er kannski þar sem hagsmunaáreksturinn verður, og þá sérstaklega milli ábúenda, landeigenda, sveitarstjórna og svo hins vísindalega mats á því hvað séu sjaldgæfar vistgerðir og annað slíkt, að menn hafi kannski ekki sama skilning eða sömu hugmyndir um það. Þetta ákváðum við að vega og meta og afgreiða með þessum hætti vegna þess að við vitum öll að þær friðlýsingar sem hér er lagt til að verði gerðar, verða ekki gerðar, hvorki fyrir austan né vestan né sunnan, nema um það náist samkomulag. Þá þarf fólk að setjast niður og ræða saman og þá ræða sveitarstjórnarmenn og landeigendur við fulltrúa Náttúrufræðistofnunar, ráðuneytis og annarra sem bera fram hin vísindalegu rök, sveitarstjórnarmenn og landeigendur bera þá fram þau rök sem þeir hafa í þeim málum og svo reyna menn að finna niðurstöðu. Ef það tekst þá tekst það, ef það tekst ekki þá tekst það ekki.

Ég held að það sé ekki þetta hundrað í hættunni sem mætti skilja af málflutningi sumra þingmanna hér, alls ekki allra, en ég held að það sé alveg hægt að ráða fram úr þessum málum með bara mjög (Forseti hringir.) góðum hætti.