138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[16:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst vegna friðlýsingar Þjórsárvera. Það var ákvörðun hæstv. umhverfisráðherra síðasta sumar að setja þá friðlýsingu í sérstakan farveg og svolítið til hliðar við náttúruverndaráætlun, ef þannig má að orði komast. Það er ákvörðun hæstv. ráðherra sem ég geri engar athugasemdir við, enda var það tillagan og er í raun tillagan í náttúruverndaráætlun að friðlýsa Þjórsárverin. Það sýnir kannski líka að það er brýnt að koma þessum málum í farveg og áfram og til framkvæmda og ekki síst vegna þess að Þjórsárverin eru afar mikilvægt náttúrusvæði hér á landi og á heimsvísu eins og hv. þingmenn vita.

Hvað varðar Egilsstaðaskóg og Egilsstaðakletta er það þannig að meiri hluti umhverfisnefndar afgreiddi málið frá sér 9. desember. Hæstv. umhverfisráðherra staðfesti breytingar á aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 21. desember sl. ef ég sé þetta rétt hér. Það þýðir í raun að þá er komið nýtt skipulag í því sveitarfélagi og þá verður það að sjálfsögðu tekið til athugunar í ferlinu sem fram fer. Það hafði ekki gerst fyrir afgreiðsluna úr nefndinni en að sjálfsögðu þarf að taka tillit til þess í úrvinnslunni, eins og tekið var tillit til deilnanna meðal heimamanna í Mýrdalnum vegna hvannstóðsins og brekkubobbans.

Ég verð að viðurkenna það, frú forseti, að ég man ekki hvað málið var tekið fyrir á mörgum fundum í umhverfisnefnd. Það kom hins vegar fyrst fram fyrir 14 mánuðum síðan, það var fyrir kosningar sem fyrsta umfjöllunin fór fram. Það var til umfjöllunar í sumar á 137. þingi í tvo mánuði. Það var til umfjöllunar á yfirstandandi þingi, 138. þingi, í mánuð nú á haustdögum, (Forseti hringir.) þannig að það hefur verið til umfjöllunar í nefndinni í þó nokkra mánuði á þessu ári.