138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[16:59]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að gera síðustu orð hv. þm. Unnar Brá Konráðsdóttur að mínum þegar hún nefndi að hér skuli stunduð vönduð vinnubrögð og allt skuli vera uppi á borði. En þá verðum við líka að sýna sanngirni og horfa til baka.

Þetta er þriðja þingið sem sú þingsályktunartillaga sem við ræðum nú er lögð fram. Hún var fyrst lögð fram árið 2007 því að hér á að vera í gildi náttúruverndaráætlun. Hún átti að taka gildi 1. janúar 2009. Hv. umhverfisnefnd var nokkuð í mun að koma þessu verki áfram því að þingsályktunartillagan er lítið breytt frá því að hún var lögð fyrst fram árið 2007. Þá búum við að þeim vinnubrögðum sem hafa löngum tíðkast og við viljum breyta á hv. Alþingi og við höfum valdið til þess en okkur skortir núna tímann.

Ég vil vekja athygli á því, og leggja á það ríka áherslu, að þetta er áætlun, er ekki bindandi, sem betur fer, segi ég, því að þó það hafi verið ljóst við framlagningu þessarar áætlunar — og þá vil ég fara beint í að taka upp svæði sem er sett inn á áætlun og ágreiningur er um sem er Egilsstaðaskógur og Egilsstaðaklettar. Þó svo þau séu enn inni í áætluninni var það vitað þegar þingsályktunartillagan var lögð fram að ágreiningur væri við landeigendur og það var vitað að fara þyrfti vel yfir þetta mál. Samt sem áður eru þessi svæði, sem sé skógurinn og klettarnir, höfð óbreytt í þingsályktunartillögunni eins og hún var lögð fram í haust. En það er vitað af þessum ágreiningi og frá því að þessi tillaga var lögð fram og frá því að hún var afgreidd úr umhverfisnefnd hefur verið gengið frá aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs. Þar stangast þingsályktunartillagan á við núgildandi aðalskipulag svo að sjálfsögðu, og það liggur í augum uppi, þarf að fara mjög vel yfir þessa vinnu.

Það er þannig með þær tillögur sem hér liggja frammi að fyrra tímabil náttúruverndaráætlunar var lögð áhersla á fugla og fuglalíf en nú er lögð áhersla á plöntur. Vissulega eru plöntur á Egilsstaðaklettum sem þarf að varðveita, það er þá bara spurning hvernig það er gert. Það er þá tilgangurinn með því að hafa Egilsstaðaklettana þarna inni og Egilsstaðaskóginn að í skóginum eru svæði sem þyrfti að vernda, bara spurning hvernig. Við gerð aðalskipulags Fljótsdalshéraðs vann sveitarfélagið mjög vandaða vinnu, að mínu mati, og lagði mikla áherslu á umhverfisvernd og að marka stefnu til framtíðar. Náttúrufræðingurinn Helgi Hallgrímsson var fenginn til að gefa umsögn um þau svæði sem hér eru nefnd og hann gerði umsögn um fleiri svæði. Þar er hann með ákveðnar tillögur um hvaða svæði Egilsstaðaskóga skuli vernda. Ég tel mjög líklegt að það verði haft til hliðsjónar þegar kemur að því að vernda þetta svæði.

Að þessu sögðu tel ég mikilvægt að við gerð þingsályktunartillagna um náttúruverndaráætlun verði farið miklu fyrr í gang með samráð við viðkomandi sveitarfélög, við viðkomandi eigendur jarða, ef þær eru í einkaeign og náttúrustofurnar alveg sérstaklega þannig að náttúrufræðistofur á viðkomandi svæðum séu með í ráðum frá upphafi. Við erum með vísindastofnanir sem að sjálfsögðu koma með fyrstu tillögur — þetta er þeirra svið á mismunandi náttúrusviðum — um það hvar við þurfum helst að bera niður til að varðveita annaðhvort ákveðnar tegundir eða ákveðið landsvæði. Við verðum líka að gæta þess að uppfylla ákveðna alþjóðlega samninga, um verndun votlendis eða plöntulíf eða fuglalíf eða hvað annað. Það er verið að vinna að því að uppfylla slíka samninga og það mun þá koma til viðbótar náttúruverndaráætlun eða fléttast inn í hana.

Ég get því sannarlega tekið undir breytingartillögu sem hér liggur frammi frá Einari K. Guðfinnssyni um að náttúrustofur komi að undirbúningi og framkvæmd náttúruverndaráætlana í samræmi við margháttað hlutverk þeirra samkvæmt lögum. Það liggur í augum uppi að þannig eigi það að vera. Ef binda þarf ákvæði um það í lög finnst mér sjálfsagt að gera það.

Hægt væri að fara frekar í ákveðna þætti. Ég vil m.a. nefna að í V. kafla eru nefnd jarðfræðisvæði og þar er nefndur Langisjór og nágrenni. Ég hefði viljað sjá Skjálfandafljót nefnt sérstaklega, samanborið við þingsályktunartillögu um verndun Skjálfandafljóts sem ég er 1. flutningsmaður að, og hefur verið flutt á þessu þingi, þar sem lagt er til að vatnasvæði Skjálfandafljóts verði friðlýst ofar Þórisdal og fljótið sjálft þar fyrir norðan eða neðan, en það er ekki. Það kemur hugsanlega í framhaldinu eða í næstu þingsályktunartillögu eftir því hvaða áherslur liggja fyrir. En ég tel að ekki sé hægt að segja að unnið hafi verið í einhverju ósætti við framlagningu þessarar þingsályktunartillögu og vinnslu hennar þar sem þetta er þriðja þingið þar sem hún er lögð fram og af annarri ríkisstjórn. Það eru því margir sem hafa komið að þessu í þinginu.

Ég tek undir það að hvað varðar undirbúning að gerð náttúruverndaráætlana þá tel ég mikilvægt að hafa samráðið miklu meira því að vitneskjan og þekkingin er oft miklu meiri í heimabyggð þó svo rannsóknirnar liggi kannski ekki allar fyrir þar. Sérfræðistofnanir okkar búa yfir þeim rannsóknum og tillögurnar koma þaðan en útfærslan, það að þetta falli að aðalskipulagi og vinnu viðkomandi sveitarfélaga, er mjög mikilvæg. En þetta er áætlun. Ég tel umræðuna hér í þinginu af hinu góða en það er greinilegt að í tillögunni eru nokkur ákvæði sem tekur einhvern tíma að vinna að. Hver útfærslan verður svo endanlega, það getum við ekki sagt til um. En alla vega er þetta komið á veg og vonandi að við höfum þann metnað að vinna faglega og framfylgja alþjóðlegum samningum um vernd náttúrunnar á hinum ýmsu sviðum. Við verðum vonandi fljót til að taka það upp í þinginu og koma því í lög og ekki bara koma því í lög heldur fylgja þessu eftir. Það er ekki síður mikilvægt, hæstv. forseti.