138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[17:16]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í þingsályktunartillögunni kemur fram á hvaða grunni þessi náttúruverndaráætlun er byggð og ég geri ekki ráð fyrir því að vísindalegir gagnagrunnar Náttúrufræðistofnunar Íslands sem byggðir eru á faglegu mati hafi í raun og veru breyst nokkuð á þeim tíma, þó svo að dregist hafi að afgreiða áætlunina. Áætlunin er byggð á þessum grunni frá Náttúrufræðistofnun Íslands og faglegu mati og ég tel að við þurfum ekki að fara neitt dýpra í það. Við skulum læra af reynslunni og í nefndaráliti hv. umhverfisnefndar kemur fram að það beri að gera.

Hvað varðar Þjórsárver tel ég að ekki sé vanþörf á því að hafa þau í sérstakri gjörgæslu, ef ég lýsi skoðun minni. Í gegnum árin hefur verið tog um það hversu stórt svæði eigi að vernda, hversu langt eigi að ganga með virkjanir eða uppistöðulón á svæðinu og mér finnst orðið mikilvægt að við förum að horfa á Þjórsárver ekki bara út frá smáblettum, út frá votlendinu eða landmótuninni sem slíkri heldur heildarsýninni. Hvað upplifum við sem Þjórsárver? Hvernig er landslagið í Þjórsárverum og hvar ætlum við að setja mörkin hvað varðar átroðning eða ásælni þeirra sem vilja virkja á svæðinu? Mér finnst mikilvægt í allri okkar vinnu að við tökum ákvörðun um heildarsýn og verndargildi fyrir meira en bara votlendið.