138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[17:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur greinilega ekki komið nógu skýrt fram við umræðuna, í dag a.m.k., á hverju náttúruverndaráætlun og tillögur að henni byggjast. Þær byggjast á vísindalegum rannsóknum, vöktun náttúrunnar á Íslandi, á grundvelli þeirra alþjóðasamninga sem við erum aðilar að og á grundvelli sérstöðu náttúru Íslands. Það eru ekki vondir menn fyrir sunnan sem hafa fundið það upp. Þetta eru samræmdar verklagsreglur og vísindaleg aðferðafræði sem er notuð úti um allan heim. Samkvæmt henni erum við a.m.k. að gera tilraun til þess að vernda plöntur, jafnvel dýrategundir, jarðmyndanir og annað slíkt sem kunna að vera í hættu af ýmsum ástæðum eða eru af öðrum ástæðum mjög sjaldgæfar eða mjög sérstæðar í náttúru Íslands. Það er grundvöllur náttúruverndaráætlunar.

Það eru líka til friðlýsingar sem eru með öðrum hætti, t.d. þær sem sveitarstjórnir gjarnan grípa til og eru mjög góðar þar sem svæði eru friðlýst, t.d. vegna útivistar og annars slíks, þær eru allt annars eðlis en þessi vinna. Hv. þingmenn verða að skilja grundvöll þessarar vinnu.

Það að leggja til að plöntur í Egilsstaðaskógi og á Klettinum séu friðlýstar, ásætur á birki, eru ekki af einhverri meinbægni við sveitarstjórn eða heimamenn. Það er bara alls ekki þannig. Ég sit ekki undir því að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson ali á því að hér sé allt tortryggilegt sem fram er lagt og til þess gert að efna til ófriðar á milli ríkis og sveitarfélaga.