138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[18:03]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér ekki hljóðs í þessari umræðu til að fjalla sérstaklega um meðferð þessa máls hér fyrir þinginu sem hefur verið töluvert í umræðunni. Ég er ekki í umhverfisnefnd og hef ekki fylgst með þeirri vinnu. En ég vil lýsa yfir ánægju með þá tillögu sem hér er til umræðu og þó sérstaklega hvað varðar þau svæði sem gerð er tillaga um að áfram verði unnið að friðlýsingu á.

Hér er gerð tillaga um eitt svæði vegna jarðfræðiminja sem ég vil sérstaklega geta um en það er Langisjór og móbergshryggir í nágrenni hans. Gert er ráð fyrir að það svæði verði hluti af Vatnajökulsþjóðgarði en hið sama gildir um þrjú önnur svæði á áætluninni. Vatnajökulsþjóðgarður er nú þegar orðinn stærsti þjóðgarður Evrópu og stærsta verkefni í náttúruvernd sem Íslendingar hafa ráðist í og gríðarlega mikilvæg framkvæmd sem skiptir mjög miklu máli fyrir þær byggðir sem liggja að garðinum sem og þjóðina alla.

Við Vatnajökulsþjóðgarð á að mínu mati að bætast allt hálendi Íslands, sérstaklega skilgreint sem slíkt, t.d. með ákveðnum hæðarmörkum. Það er sannfæring mín að slíkur þjóðgarður, þar sem stærsti jökull Evrópu er, sé einn mesti fjársjóður Íslendinga um ókomna tíð — óspillt náttúra alls hálendisins sem reynslan sýnir okkur að fólk hvaðanæva úr heiminum hefur ómælda ánægju af því að heimsækja og upplifa. Fyrsti áfanginn í þessum efnum gæti falið í sér að tengja saman friðlandið að Fjallabaki og Vatnajökulsþjóðgarð.

Eins og fram hefur komið er unnið að gerð rammaáætlunar um verndun og nýtingu náttúrusvæða þar sem raða á mögulegum virkjunarkostum eftir hagkvæmni þeirra og verndargildi viðkomandi svæða. Þeirri vinnu lýkur senn og skapast þá tækifæri til að skoða mögulega friðlýsingu þeirra svæða sem metin eru verðmætust frá náttúruverndarsjónarmiðum eftir þeirri aðferðafræði sem notuð er í rammaáætlun og mati þeirra sérfræðistofnana sem unnið hafa grunnvinnu fyrir stjórn rammaáætlunar. Þar á meðal annars að meta verndargildi háhitasvæða en ljóst er að mörg verðmætustu náttúruverndarsvæði landsins eru háhitasvæði. Við verðum að meta hver þeirra við viljum nýta sem náttúrugersemar með náttúruvernd og hver við viljum nýta til raforkuframleiðslu.

Það er mikilvægt í þessum efnum að haft sé samráð við heimafólk á þeim svæðum sem um ræðir, sveitarstjórnarfólk og hagsmunaaðila. Það verður jafnframt að gera á grundvelli þess að svæðin eru ekki einkamál þessara aðila heldur er í flestum tilfellum um að ræða verðmæti sem eiga að vera í eigu þjóðarinnar allrar, eru það í dag og eiga að vera í eigu þjóðarinnar og ókominna kynslóða.

Það er jafnframt skoðun mín að umhverfisráðherra eigi að minnsta kosti einu sinni á ári að koma fyrir þingið og gefa skýrslu um framkvæmd náttúruverndaráætlunar og að meira verði gert úr stefnumótunarhlutverk þingsins í þeim efnum. Nýverið var hér í þinginu, virðulegur forseti, fjallað um nauðsyn þess að skipuleggja hálendið með tilliti til ferðaþjónustu. Sú umræða hefur verið í gangi í mjög langan tíma. Nú er komin fram þingsályktun þessa efnis frá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur og ber að lofa það framtak. Í henni kemur einmitt fram að ferðamönnum á Íslandi hefur fjölgað mikið síðustu áratugi og þrátt fyrir efnahagsþrengingar á alþjóðavettvangi hefur heildarfjöldi ferðamanna staðið í stað og stóð í stað lengi vel fram eftir hausti á síðasta ári. Á síðustu fimm árum, á tímabilinu 2003–2008, fjölgaði erlendum ferðamönnum sem hingað komu um 9,8% á ári, á þarsíðasta ári, árið 2008, voru það 502.000 erlendir ferðamenn sem sóttu landið heim. Auðvitað bætast við þessa tölu allir þeir Íslendingar sem ferðast í æ ríkari mæli um eigið land.

Miðað við þessa aukningu má vænta þess að yfir ein milljón erlendra ferðamanna sæki landið heim árið 2016, eða fljótlega upp úr því. Til að hægt sé að taka á móti auknum fjölda ferðamanna án þess að skemma viðkvæma náttúru eða upplifun ferðamannanna er grundvallaratriði að vinna landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku, sérstaklega á miðhálendinu.

Alla þessa ólíku þætti, sem ég hef hér rakið og vildi koma sérstaklega að í þessari umræðu, þarf að mínu mati að skoða heildstætt þannig að heildin falli saman í náttúruvernd með þeim fjölmörgu sjónarmiðum sem þar þarf að gera skil — rammaáætlun um verndun og nýtingu og svo skipulag hálendis Íslands með tilliti til aukinnar ásælni ferðamanna, innlendra sem erlendra, ber að fagna, en með aðgát að leiðarljósi.