138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[18:08]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mál en fyrr í dag komu allnokkur okkar hingað upp og lögðum til að það yrði tekið af dagskrá og reynt að fjalla um það aftur, vísað til ríkisstjórnarinnar, eða notaðar þær löglegu leiðir sem við höfum til þess í þinginu. Ástæðan er sú, og hefur komið fram í máli fjölmargra aðila, að í þessari ályktun sem sannarlega hefur verið lögð fyrir fleiri en eitt þing — má þess vegna segja að hún hafi verið lengi til umfjöllunar í þinginu — er talsverður ágreiningur um þó nokkur atriði. Heimaaðilar, landeigendur, hagsmunaaðilar eða sveitarfélög, hafa lagt til verulegar athugasemdir og umsagnir hafa verið frekar neikvæðar en engu að síður er þetta komið hér inn.

Ég minntist á það fyrr í dag að þegar þetta var lagt fyrir á sumarþingi hefði það vakið nokkra athygli. Þetta væri sams konar tillaga og lögð hefði verið fram á þinginu síðasta vor, þinginu sem lauk náttúrlega við kosningarnar. Og þrátt fyrir þær umsagnir sem borist höfðu, þrátt fyrir að málið hefði verið búið að taka ákveðnum breytingum, kom það óbreytt inn aftur. Þetta vakti nokkra furðu þeirra sem fengu málið aftur til umfjöllunar, töldu sig hafa verið búna að senda inn umsögn og einhverjir þeirra voru jafnvel á þeirri skoðun að þeir þyrftu ekki að gera þetta því að þeir hefðu gert það áður. Þrátt fyrir að málið sé búið að vera lengi hér í þinginu er það óljóst mörgum hvort þetta sé sama málið því að þetta er auðvitað ekki sama þingið. Í þeim rökum sem mig minnir að hæstv. ráðherra hafi notað þegar þetta var kynnt hér í þinginu í sumar var m.a. sagt að það væru svo margir nýir þingmenn að það hefði verið mat ráðuneytisins að eðlilegast væri að leggja málið fyrir óbreytt að nýju.

Auðvitað birtust talsvert af þessum umsögnum aftur, sem voru neikvæðar margar hverjar, og þess vegna verð ég að segja það, og kannski ekki síst í ljósi þess að það voru svo margir nýir þingmenn sem að einhverju leyti voru að fjalla um þetta mál í fyrsta sinn, þó einhverjir þeirra kannist kannski við það úr öðrum störfum sínum annars staðar — í nefndaráliti meiri hlutans eru taldir upp tveir starfsmenn úr umhverfisráðuneytinu, einn frá Náttúrufræðistofnun og einn frá Umhverfisstofnun sem komið hafi á fund nefndarinnar. Hins vegar er sagt að umsagnir um málið hafi borist frá ótal aðilum og þar eru taldar upp nokkrar ríkisstofnanir, sem tengjast ráðuneytinu og framlagningu málsins, og líka alls kyns aðrir aðilar, eins og sveitarfélög og hópar fólks sem jafnvel hafa verið stofnaðir til að bregðast við þessum hugmyndum, fyrir utan landeigendur og alls kyns önnur hagsmunasamtök. Enginn þessara aðila fór fyrir nefndina, einungis umsagnir þeirra. Þetta er svolítið athyglisvert og kannski ekki dæmi um góða stjórnsýslu sem við gjarnan tölum um og viljum fara að viðhafa.

Það kom líka fram hér í umræðunni í sumar að núverandi náttúruverndaráætlun — ég man nú ekki hvort það eru 13 tillögur þar, eða svæði, eða 18, en það hefur ekkert gengið allt of vel að koma þeim í framkvæmd og eiginlega eru þó nokkrar af þeim eftir. Kannski hefði ekki verið óeðlilegt, og ekki síst í ljósi efnahagsástands og árferðis, að sú ályktun sem nú væri lögð fyrir hefði áfram verið sú sama, þar sem ekki væri búið að vinna þær tillögur til hlítar sem voru í fyrri ályktun, og þeim ályktunum bætt við sem enginn ágreiningur væri um en öllum ályktunum sleppt sem mikill ágreiningur er um við heimaaðila, landeigendur, sveitarfélög og aðra aðila til að uppfylla það skilyrði að hér sé náttúruverndaráætlun í gangi. Mér hefur heyrst, og heyrðist það í haust þegar málið var tekið hér út með miklum gassagangi, og kannski aftur þegar við uppgötvuðum að þetta mál átti að koma hér á dagskrá á fyrsta starfsdegi þingsins eftir hlé, að það væri ein af ástæðunum fyrir því að það væri nauðsynlegt að slík ályktun, náttúruverndaráætlun væri til, það væru landslög fyrir því. Það hefði verið eðlilegt að taka þau svæði sem enginn ágreiningur væri um en fresta hinu.

Það hefur jafnframt komið fram að engir peningar séu til til að fullnusta þær áætlanir sem fyrir eru. Í fyrri áætlunum eru fjölmörg dæmi um slíkt, m.a. hafa slík vinnubrögð haft þau áhrif að heimamenn sem þekkja vel til slíkra friðlýsinga, sem koma í kjölfarið á þessu, verða ósáttir við þetta. Mig langar til að nefna hér dæmið um Dyrhólaey. Þar hefur engin vöktun verið. Það eru vísbendingar um að sú friðun sem þar hefur verið hafi ekki haft jákvæð áhrif á fuglalíf. Hún hefur haft talsvert mikil neikvæð áhrif á ferðaþjónustu og valdið miklum titringi í því samfélagi vegna þess að mikil átök hafa verið um þetta. Þar vantar fjármuni til þess að gera þetta almennilega til þess að menn sjái að einhver ávinningur sé af því og það þurfa líka að koma til rannsóknir af vísindalegum toga sem sýna fram á að friðun skili einhverjum þeim árangri eða þessar friðlýsingar sem þar eru.

Megintilgangur minn að koma hérna upp er fyrst og fremst sá að benda á að til að uppfylla lagaskylduna um að hér sé í gildi náttúruverndaráætlun hefði átt að taka þau svæði til sem enginn ágreiningur var um og vísindalegar rannsóknir sýna að æskilegt væri að taka en geyma önnur svæði einfaldlega vegna þess að við höfum ekki fjármuni eða getu til að sinna þessu á þeim næstu árum sem áætlunin tekur til.

Það hefði verið raunréttara að sníða sér stakk eftir vexti og skynsamara án þess að vera að ergja fólk um allt og nota þá frekar tímann til að styðja þessi vísindalegu rök einhverjum pólitískum rökum sem þarf til þess að fá til að mynda sveitarfélög til að setja slík mál inn á aðalskipulag þannig að ekki verði árekstur við þau.

Engu að síður var eitt mál tekið út, það var um hinn margfræga og margumtalaða brekkubobba á Reynisfjalli, í hvannastóðinu þar. Ég vil þakka formanni umhverfisnefndar, hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, og hæstv. ráðherra fyrir að hafa tekið vel í það. Ég kom aðeins að því máli en auðvitað voru það fyrst og fremst heimamenn sem þar stóðu sem einn maður. Stærsti hluti heimamanna, um 80%, töldu að þetta væri galin framkvæmd og nóg væri til af brekkubobba hingað og þangað til að friða og engin ástæða væri til að fara í þá framkvæmd. Ég er mjög ánægður og þakka ríkisvaldinu fyrir að taka tillit til þeirra sjónarmiða.

Á sama hátt á ég mjög erfitt með að skilja af hverju menn hafa ekki tekið með sama hætti tillit til sjónarmiða, eins og fram hafa komið hjá fjölmörgum aðilum og ítarlega er fjallað um í nefndaráliti minni hluta umhverfisnefndar, um Egilsstaðaskóg og Egilsstaðakletta. Það finnst mér alveg vera týpískt dæmi um að það hefði átt að gera með nákvæmlega sama hætti og með brekkubobbann, að draga hefði átt þá tillögu til baka og reyna að vinna henni stuðning meðal heimaaðila ef einhver von hefði verið til þess. Eins og fram hefur komið í ræðum þeirra sem tala fyrir því að þetta sé bara áætlun sem komi aldrei til framkvæmda fyrr en allir séu sáttir, þá er alveg tilgangslaust að setja fram slíka ályktun, áætlun sem gerir það eitt að ergja menn til mótstöðu og gera það erfiðara að koma fram með slíkar áætlanir. Það hefði nú bara verið skynsamlegt og ég legg til að á einhverjum tímapunkti verði það gert áður en þessi áætlun verður borin hér upp til samþykktar.

Á sama hátt vil ég taka undir það sem kom fram í minnihlutaálitinu varðandi tillöguna um Skaftárhrepp eða þau svæði sem þar eru, í Skaftártungu og inni á Síðuafrétti, þar sem sveitarfélagið hefur óskað eftir því að þessu máli verði frestað meðan það klárar aðalskipulag sitt. Það væri afar skynsamlegt að taka höndum saman með sveitarfélögunum sem fara með skipulagsvaldið á hverju svæði, alla vega hefur það verið hingað til þó að maður verði að viðurkenna að trekk í trekk hefur það komið í hlut núverandi umhverfisráðherra að synja skipulagstillögum sem sveitarfélögin hafa lagt fram eftir þó alllanga dvöl í ráðuneytinu, synjað þeim staðfestingar, en engu að síður er það svo að samkvæmt lögum er skipulagsvaldið hjá sveitarfélögunum. Ég held að skynsamlegt væri í þessu tilviki eins og í tilviki Egilsstaðasvæðisins eða tillöguna um friðlýsingu Egilsstaðaskógarins og Egilsstaðaklettanna að taka höndum saman með sveitarfélögunum og vinna málið betur.

Á sama hátt má nefna þær hugmyndir um að stækka allt í einu friðlandið í Þjórsárverum langt umfram niðurstöðu þeirra sem unnu sameiginlega að henni á árinu 2007. Það er óskynsamlegt af því að það mun verða til þess að um það verða átök. Það er miklu skynsamlegra að reyna að fara þær leiðir að taka einungis til og samþykkja áætlanir þar sem menn eru nokkurn veginn sáttir um af því að það er, eins og ég kom inn á í upphafi máls míns, alveg klárt að engir fjármunir eru til til að fara í allar þessar áætlanir þegar auk þess er á það minnst að einhver hópur af þeim sem var í þeirri síðustu eru ókláraðar.

Að lokum langar mig að styðja og taka jafnframt undir breytingartillöguna um náttúrustofurnar. Þær eru mjög mikilvægar og ég hef velt því fyrir mér, þó að það sé alls óskylt mál, að þegar við höfum verið að fjalla um Náttúrufræðistofnun og þá hrakhóla sem sú stofnun er á og skort á byggingum að þá hefði ég talið að núna væri kannski lag, m.a. í þessu efnahagsástandi, að við horfum til landsins alls, horfum á allar náttúrufræðistofurnar og náttúrugripasöfnin sem eru um allt land og stofnuðum náttúrufræðistofnun sem væri ekki á einum stað heldur víða og hlutir gætu síðan farið á milli og menn verið með sérhæfingu hvar sem er. Þetta net náttúrustofa væri þá net fræðimennskunnar og náttúrugripasöfnin á hverjum stað gætu verið sýningarhlutinn. Ég tek því undir að mikilvægt sé að auka vægi náttúrustofanna um landið.

Ég ætla að ljúka máli mínu með því að taka undir það sem hér hefur komið fram í sambandi við það að þrátt fyrir að málið sé búið að vera lengi til umfjöllunar í þinginu hafi þetta þing — þeir þingmenn sem voru kosnir til að fjalla um þetta, þessir nýju 27 — í sjálfu sér ekki fjallað nægilega um þetta og þess vegna séu umtalsverðir gallar á málsmeðferðinni. Ég er þeirrar skoðunar að mjög mikilvægt sé og líklegra til árangurs að haft sé fullt samráð frá upphafi við alla hagsmunaaðila, landeigendur, sveitarfélög, og reyna ekki að troða þessum friðlýsingaráætlunum eða náttúruverndaráætlunum ofan í neikvætt heimafólk. Það er ekki líklegt til árangurs. Ég held því að það sé afar óheppilegt að reyna að afgreiða málið á þann hátt. Það kom fram í þinginu í dag að talsvert ósætti er í þinginu. Ég held að málið sé þess eðlis að við getum verið sammála um marga þætti þess og eigum að einbeita okkur að því, en geyma ágreiningsmál og ýta þeim til hliðar. Ef ekki eru aðrar leiðir til að koma málinu frá en að vísa því til ríkisstjórnarinnar styð ég þá tillögu.