138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[18:25]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur kærlega fyrir þessa fyrirspurn og tækifæri til að dýpka aðeins umræðuna um þennan hluta málsins.

Það er rétt, ég hef setið alllengi í sveitarstjórn, eins og reyndar hv. þingmaður, og í stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og hef þess vegna þurft að fjalla m.a. um umsagnir um síðustu náttúruverndaráætlun. Það var mjög einsleitt hljóð í öllum sveitarstjórnarmönnum sem spanna þá allt Suðurlandið austur að Hornafirði, um hvað afstaða þeirra til náttúrverndaráætlanagerðar ríkisins var neikvæð vegna þess að þeim fannst þetta ævinlega koma að ofan og væri ekki í samráði við sveitarstjórnirnar, ekki koma fyrr en málið væri komið inn. Sú túlkun sem ég heyrði að hv. þingmaður vitnaði til og ég hef náttúrlega heyrt í umræðunni í dag, um að þetta sé einungis áætlun og hafi ekkert gildi og verði ekki framkvæmt fyrr en full sátt sé um þetta, það er akkúrat skilningur sem sveitarstjórnirnar skilja ekki, hvernig mönnum dettur í hug að setja fram áætlun sem hafi auðvitað umtalsverð áhrif.

Sveitarstjórnirnar munu þá í kjölfarið leitast við að koma þessu hver inn í sitt aðalskipulag en finnst afar óþægilegt að vera gert að vinna slíka vinnu með þessum hætti. Það er miklu eðlilegra að þarna fari fram samráð áður en að þessu kemur, alveg eins og sveitarstjórn Skaftárhrepps er að óska eftir núna, að fá svigrúm á meðan hún er að vinna aðalskipulagið og tekur þá væntanlega tillit til þessara þátta ef þeir eru eins mikilvægir og fram kemur í náttúruverndaráætluninni og getur þá metið það þar. Það er miklu eðlilegra að slík vinna sé ástunduð en að ríkisvaldið samþykki eitthvað og smelli því yfir á sveitarfélögin sem jú hafa skipulagsvaldið en þau upplifa þetta sem neikvæða árás á það vald.