138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[18:27]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þetta svar hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar. Það er annað atriði sem mig langaði að spyrja aðeins út í vegna þess að það var leitað samráðs um eitt atriði sem er tilgreint í þessari tillögu til þingsályktunar og það var einmitt varðandi afmörkun svæðisins í Þjórsárverum. Þar var stofnaður sérhópur til að fara yfir það mál, reyna að afmarka svæðið. Þar áttu m.a. sæti fulltrúar sveitarfélaganna. Hvaða áhrif telur hv. þingmaður það hafa á frekari samvinnu og frekari tillögugerð í framtíðinni að þeirri vinnu var allri saman hent út um gluggann og afmarkað allt annað svæði sem er ekki nákvæmlega rökstutt hér á hvaða grundvelli er byggt? Það læðist að manni sá grunur að verið sé að reyna að sporna gegn því að þarna verði farið í einhverjar framkvæmdir vegna þess að orðalagið í þingsályktunartillögunni er mjög furðulegt.

Hér stendur, með leyfi forseta:

„Jafnframt yrðu friðlýsingarskilmálar styrktir og bann lagt við röskun innan svæðisins.“

Ég tel að hér sé allt of langt gengið og þetta sé í rauninni ekki verkefni eða hlutverk náttúruverndaráætlunar að taka svona til orða. Hvaða áhrif telur hv. þingmaður, þar sem þó er leitað samráðs, sátt náðist um þetta erfiða mál, það komi til með að hafa á samvinnu ríkis og sveitarfélaga í málum sem þessum? Erum við kannski að horfa á alvarlegra mál en hv. þingmenn stjórnarliðsins vilja vera láta, vegna þess að ég tel jafnvel að svo sé?