138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[18:29]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hérna sé kannski komið að ákveðnum kjarna í þessu máli hvað varðar túlkun á því hvað náttúruverndaráætlun er. Mér sýnist að stjórnarmeirihlutinn líti á náttúruverndaráætlunina sem sína pólitísku stefnu og hafi ekkert með sveitarfélögin eða aðra að gera, þetta sé bara þeirra pólitíska stefna, hún taki ekkert gildi fyrr en búið sé að ná sátt og samlyndi, þetta sé sem sagt pólitísk yfirlýsing. Það má vel vera að einhverjir telji að það sé affarasælast til að ná fram þeim tilgangi og markmiði laganna um náttúruvernd, en ég hefði haldið að það væri miklu eðlilegra að menn leituðu þessa samráðs fyrst og færu síðan eftir því samráði, jafnvel þó að það sé auðvitað kannski freistandi fyrir ríkjandi stjórnvöld á hverjum tíma að lauma inn einhverjum þeim pólitískum stefnumálum sínum inn í náttúruverndaráætlunina til að geta sagt: Ja, við gerðum nú þetta — þegar þar að kemur að leita þarf til kjósenda að nýju. Alveg óháð því að þegar verið er að koma málinu í gengum þingið að þá er sagt að þetta hafi engin áhrif vegna þess að það verði ekkert gert fyrr en allir séu sammála.

Ég held að þarna sé kannski að kristallast ákveðinn — við getum alveg kallað það ágreining eða kannski bara misskilning á því um hvað áætlun um náttúruvernd þýðir. Ég lít svo á, kannski er það vegna þess að ég hef lengi starfað í sveitarstjórnum, að þetta sé yfirlýsing samfélagsins um hvert við viljum stefna og að sveitarfélögin taki tillit til þess í áætlanagerð sinni þegar þar að kemur.

Varðandi Þjórsárverin hefði verið, held ég, heppilegast að halda sig við það samráð og það (Forseti hringir.) samkomulag sem komið var og hefja þá nýjar viðræður áður en (Forseti hringir.) menn fara í stækkun.