138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[18:31]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun 2009–2013. Þessi náttúruverndaráætlun er nokkurs konar viljayfirlýsing sem byggir á traustri verndun íslenskrar náttúru og framkvæmd alþjóðlegra samninga um náttúruvernd hér á landi, þ.e. fagmennsku. Tilgangurinn er að koma upp neti verndarsvæða, byggðu á faglegum forsendum, til þess að tryggja verndun landslags, náttúru og líffræðilegrar fjölbreytni, þess sem sérstætt er í náttúru Íslands, fágætt eða í hættu og að friða náttúruleg landsvæði til náttúruverndar, vísindarannsókna, vöktunar og útivistar. Þetta er í raun og veru hinn eiginlegi tilgangur náttúruverndaráætlunar.

Ég lít svo á að þarna komi fagmennska, þarna komi okkar helstu sérfræðingar fram með sínar hugmyndir, þeir hafa gert sínar rannsóknir og komist að niðurstöðu, og að í þessari áætlun komi fram þau svæði, plöntur og dýr sem eðlilegt sé að við verndum. Það getur svo aftur á móti verið að þetta skarist eða komi á einhvern hátt við eða myndi einhvers konar togstreitu gagnvart vinnu sem unnin hefur verið innan sveitarfélaganna þar sem aðalskipulag sveitarfélaga, og nú er mjög víða á landinu nýlegt aðalskipulag þar sem sveitarfélög hafa mótað sína framtíðarsýn. Oftast eru þetta, og ég held bara alltaf núna, metnaðarfullar áætlanir sem eru unnar í góðri samvinnu heimamanna og fagaðila. Þar koma fram ákveðnar hugmyndir frá heimamönnum þar sem þeir leggja til sín verndunarsvæði sem er virkilega af hinu góða. En ég held að við verðum að horfast í augu við það eftir sem áður — og nú get ég talað af ákveðinni reynslu af því að ég var svo heppin að fá að sitja í stýrihóp um aðalskipulag Fljótsdalshéraðs sem er landstærsta sveitarfélag á Íslandi, þar fengum við mjög góða fagmenn til að hjálpa okkur við okkar náttúruverndarhugmyndir — ég held samt að ég verði að horfast í augu við það að þar var kannski ekki sama faglega færnin og okkar færustu fagstofnanir búa yfir. Mér finnst að ég verði að gera mér grein fyrir því og allir hér inni að það er ekki alveg sama faglega matið sem við höfum.

Eftir sem áður viðurkenni ég, og ég velti því auðvitað heilmikið fyrir mér þar sem ég stend frammi fyrir því að í minni heimabyggð er alveg nýtt aðalskipulag sem ég tel hafa verið unnið af miklum metnaði eins og ég sagði og við lagt okkur fram við að gera það á besta hátt og síðan kemur hér fram tillaga um náttúruverndaráætlun sem ekki er í samhljómi við það. Ég leyfi mér að lesa hér upp úr greinargerð með aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Það er stefna Fljótsdalshéraðs að vera öðrum fyrirmynd með því að sýna ábyrgð gagnvart umhverfi og komandi kynslóðum. Lögð er áhersla á samstarf við íbúa og fyrirtæki og ábyrgð þeirra í að skapa sveitarfélaginu snyrtilega og fagra ásýnd. Í starfsemi sveitarfélagsins er litið á umhverfismál sem framtíðartækifæri.“

Þetta höfðum við svo sannarlega að leiðarljósi. Einnig var heilmikið rætt um bæði verndun og síðan nýtingaráætlanir. Þetta allt saman tel ég okkur hafa gert mjög vel og velti virkilega fyrir mér þegar ég les síðan áfram í þessari ágætu tillögu til þingsályktunar, þar er talað um hvernig framkvæmd náttúruverndaráætlunarinnar verður og þar er sagt, með leyfi forseta:

„Vinna við friðlýsingu svæða sem eru á náttúruverndaráætlun 2009–2013 mun krefjast samvinnu og samráðs við landeigendur, sveitarstjórnir og ýmsa aðra hagsmunaaðila. Við framkvæmd náttúruverndaráætlunar verður lögð áhersla á kynningu og samráð eins snemma í ferlinu og hægt er og að þeir sem teljast hafa sérstakra hagsmuna að gæta verði skilgreindir eins fljótt og auðið er. Þessari aðferðafræði er ætlað að stuðla að aðkomu hagsmunaaðila snemma í friðlýsingarferlinu og auka þannig líkur á að sátt náist um friðlýsingu, sem er grunnurinn að því að friðlýsingin nái þeim markmiðum sem að er stefnt.“ — Og svo er lengi haldið áfram.

Við getum deilt um það og ákveðið að reyna að búa til togstreitu á milli skipulagsvaldsins og náttúruverndarstofnana, umhverfisráðuneytis og Umhverfisstofnunar, um að það skipti máli hvort komi á undan, eggið eða hænan. En ég tel að við eigum ekki að fara þá leið. Þetta er bara önnur náttúruverndaráætlunin sem unnin er og okkar færustu sérfræðingar hafa lagt ákveðinn grunn að því hvað það er sem eðlilegt er að vernda miðað við forsendur. Heimamenn hafa síðan í raun og veru miðað við sínar forsendur og miðað við hagsmuni heimamanna, komið með sínar hugmyndir, og í sameiningu verðum við að ná saman um þessi mál, þannig að allir fái sitt fram.

Svo ég taki sérstaklega mál sem tengist minni heimabyggð, sem er sú hugmynd að vernda Egilsstaðaskóg og Egilsstaðakletta. Þetta er auðvitað talsvert erfitt mál vegna þess að stunduð er matvælaframleiðsla í næsta nágrenni við það landsvæði sem talað er um að friða og það veldur að sjálfsögðu togstreitu. Nauðsynlegt er að vinna faglega að lausn þeirrar togstreitu og þess vegna er ég mjög ánægð með að sjá að í tillögunni er aftur og aftur rætt um að hér sé ekki um endanlega áætlun að ræða sem segir að þetta skuli vera svona, heldur er gert ráð fyrir því að farið verði með málið heim í hérað og það afgreitt þannig. Ég treysti því að á þessu verði fundin ákveðin lausn.

Mér finnst umræðan hér bera merki þess að vinnubrögð í þessari samvinnu verði bætt og þessu samráði. Ég tel t.d. að við — svo ég taki sérstaklega þetta dæmi þó að mér finnist ekki endilega rétt að ræða einstök mál eða kannski mál einstakra lögbýla úr ræðustól Alþingis — heimamenn á Héraði, höfum unnið okkar heimavinnu mjög vel og faglega og svo lít ég þannig á að bæst hafi við vitneskja um fágætar plöntur á okkar svæði og mér finnst að við eigum í raun og veru að taka því fagnandi og hugsa: Hvernig getum við þá unnið að þessu máli og að sjálfsögðu í góðri samvinnu allra aðila? Auðvitað er málið flókið í þessu tilfelli þar sem landið er í einkaeigu og það verður að sjálfsögðu að nást full sátt um það, en mér finnst við ekki mega gera of mikið úr ágreiningsmálinu heldur eigum við frekar að hugsa: Þetta er fyrst og fremst gamall skógur sem þarna er um að ræða, getum við ekki reynt að finna einhverja lausn á málinu í staðinn fyrir það að vera með ákveðin gífuryrði um það hvort eigi að koma á undan, eggið eða hænan?

Staðan er sú að við erum með náttúruverndaráætlun núna, við erum með aðalskipulag sveitarfélaga og við þurfum að reyna að finna ákveðna lausn þannig að allir geti vel við unað. Að heimamenn hafi það á tilfinningunni að ekki sé gengið yfir rétt þeirra á nokkurn hátt, að faglegt mat okkar færustu sérfræðinga í náttúruvísindum sé ekki fótumtroðið vegna þess að staðbundnir hagsmunir séu í raun og veru teknir fram yfir. Við verðum að reyna að finna einhverja góða og farsæla lausn á málinu sem við getum öll fellt okkur við, hvort kemur á undan náttúruverndaráætlun eða aðalskipulag og í hvorri röðinni við vinnum þetta er kannski ekki aðalatriðið.