138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[18:47]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið, en það var einmitt þannig að umsagnaraðilum, bæði að austan og öðrum, var ekki gert kleift að koma á fund nefndarinnar og ræða við hana um athugasemdir sínar. Ég hef heyrt í fólki að austan, sveitungum hv. þingmanns, sem eru ekki sáttir við þau vinnubrögð. Þannig að ég hef áhyggjur af þessu og ég hef áhyggjur af því að með þessu sé verið að skapa óróa og óánægju með mál sem algjör óþarfi er að setja í þennan farveg og kemur að mínu viti til með að hafa áhrif á framhaldið. Það er punkturinn sem verið er að reyna að koma á framfæri. Ég fagna því að hv. þingmaður hefur kjark til þess, ein stjórnarþingmanna hér, að taka undir það að eðlilegra hefði verið að viðhafa þau vinnubrögð að leyfa fólki að koma á fund nefndarinnar. Ég fagna því og þykir það sýna ákveðinn kjark í þessari umræðu sem fram hefur farið í dag.

Í máli hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar kom fram að hann væri að íhuga að leggja fram breytingartillögu þar sem lagt yrði til að fyrirætlanir um friðun Egilsstaðaskógar og Egilsstaðakletta féllu út úr áætluninni. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hún sé tilbúin til að styðja slíka tillögu til að hægt væri að fara með málið í samráðsferli heima í héraði og reyna að leita leiða til að skapa frið varðandi þetta atriði áætlunarinnar.