138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[18:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef nú staðið nokkrum sinnum í pontu í dag til þess einmitt að svara þeim spurningum sem fram hafa komið í umræðunni í andsvörum við hv. þingmenn, bæði stjórnar og stjórnarandstöðu. Má vera að eitthvað standi út af eftir umræðuna.

Fyrst ber að nefna tillögu um stækkun verndarsvæðis Þjórsárvera. Nú er það svo að tillagan frá 2007 sem hér hefur verið minnst á er mjög umdeild og vísindamenn og náttúrufræðingar — þar ætla ég fremsta að nefna Þóru Ellen Þórhallsdóttur prófessor, mesta sérfræðing Íslands og í heiminum, ef út í það er farið, um þetta svæði, en hún er ein þeirra sem telur tillöguna alls ófullnægjandi og við erum reyndar fleiri þeirrar skoðunar. Það er á stefnuskrá þessarar ríkisstjórnar að vernda votlendið allt og það var reyndar líka á stefnuskrá fyrrverandi ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Það þýðir að svæði sem var markað fyrir líklega tæplega 30 árum þarf að stækka ef mönnum er alvara með það að vernda allt votlendi og heildina Þjórsárver, sem er viðurkennt ómetanlega verðmætt náttúrusvæði, votlendi á heimsvísu.

Ég svara því til um fjölda funda að ég myndi ekki nákvæmlega töluna, en ég skal komast að henni og segja þingmanninum frá því eigi síðar en á morgun.

Hvað varðar Skaftárhrepp hafði ég í ráðherratíð minni nokkur samskipti við sveitarstjórn þar einmitt vegna stækkunar Vatnajökulsþjóðgarðs og fleiri atriða. Það eru vissulega rök fyrir því að bíða þess að aðalskipulaginu ljúki. En það á við (Forseti hringir.) mjög víða um landið. Náttúruverndargildi þeirra svæða sem eru metin samkvæmt náttúruverndaráætlun breytist (Forseti hringir.) ekki þótt skipulag sé lagt fram.