138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[18:57]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svörin sem voru mjög góð og ég biðst forláts á því að fjöldi fundanna hafi farið fram hjá mér, en ég hlakka til að fá að heyra svarið á morgun, þetta er spennandi.

Varðandi Þjórsárver, þá var ég ekki að vísa til þeirrar umræðu og þeirrar afmörkunar sem átti sér stað fyrir 30 árum, heldur átti ég við þá afmörkun sem nefndin, sérstaka nefndin, fékk í gegn. Þar sátu fulltrúar sveitarstjórna og svo fulltrúi umhverfisstofnunar og nefndin var skipuð af umhverfisráðuneytinu. Þannig að mig vantar í rauninni forsendur fyrir því hvers vegna svæðið var stækkað. Ef það er svo að einfaldlega er verið að stækka það til að koma í veg fyrir eða reyna að hindra að virkjað sé á svæðinu er ágætt að það komi fram í umræðunni, en að mínu mati er þessi náttúruverndaráætlun ekki tæki til þess. Það þarf að taka umræðuna þar sem við á. Þess vegna er m.a. vinna við rammaáætlun í gangi og þegar það mál kemur hér í gegn verður að sjálfsögðu rætt um það í þinginu. Jafnframt er það sveitarstjórnanna að fara með skipulagsvaldið og veita framkvæmdaleyfi og þess háttar.

Orðalagið í náttúruverndaráætluninni, eða þeim drögum sem fyrir liggja, kemur svolítið á óvart, mælst er til þess að lagt verði bann við röskun innan svæðisins. Mér þykir afskaplega sterkt til orða tekið miðað við tilgang og forsögu þess að náttúruverndaráætlun skuli leggja fyrir þingið.

Mig langar að síðustu að þakka þeim þingmönnum sem hafa blandað sér í umræðuna, vegna þess að ég vona að við lærum eitthvað af henni, lærum að betra er að taka sér aðeins meiri tíma í málin inni í nefndum og vera þar með ítarlega og fullnægjandi umfjöllun, þar sem hv. þingmenn geta fengið svar við spurningum sínum, til þess einmitt að við þurfum ekki að standa hér (Forseti hringir.) heilu og hálfu dagana og tala um mál til að ná fram upplýsingum sem ekki liggja fyrir.