138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[18:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður þarf að koma í umhverfisnefndina með okkur og vinna í þessum málum, ég mundi fagna því.

Hvað varðar Þjórsárver þá er baráttan fyrir verndun þeirra áratugalöng. Við sem höfum staðið í henni, fjöldi fólks, áratugum saman höfum ekki farið í launkofa með það að þetta verðmæta svæði þarf að vernda og þar verður ekki hvort tveggja verndað og virkjað. Það liggur fyrir í umræðunni og í raun og veru í deilunum um Þjórsárver að það að setja þarna niður 560 eða 570 ferkílómetra lón er í engu samræmi við verðmæti svæðisins sem er einstakt á heimsvísu. Þarna verður ekki hvort tveggja gert. Það kann að vera að það sé hægt annars staðar á landinu, en þarna verður ekki hvort tveggja gert. Það er alveg skýr afstaða Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að Þjórsárver beri að vernda. Að því stefnum við.

Hvað varðar umræðuna hér í dag og ég hóf nú mál mitt á því að reyna að skýra það út fyrir þingmönnum og þingheimi hvernig stæði á því að við hefðum tekið málið út með þessum hætti, þar vógust á lögbundin skylda til að hafa í gildi náttúruverndaráætlun í landinu sem nú hefur ekki verið í gildi í ár eða svo og það að hér er um tillögur að ræða sem verða útfærðar í samvinnu og samráði við alla hlutaðeigandi hagsmunaaðila. Þetta tvennt var lagt á vogarskálarnar og niðurstaða meiri hluta nefndarinnar var að gera þetta með þessum hætti.