138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[19:01]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig og hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur greinir á um það hvort þörf hafi verið á flýtinum og við erum sammála um að vera ósammála um það atriði, það er í fínu lagi með það. Varðandi Þjórsárver, af því að hv. þingmaður kveðst vera friðunarmanneskja hvað þau varðar, þá var engu að síður ákveðið að setja öll þessi mál í mikla vinnu sem heitir rammaáætlun og ég tel mjög óheppilegt að verið sé að blanda þessum ferlum saman með þeim hætti sem birtist hér. Ég tel að við verðum einfaldlega að hafa þolinmæði til að bíða eftir því að sjá hvað kemur út úr þeirri vinnu. Við fáum niðurstöðuna inn í þingið til þinglegrar umfjöllunar og ég tel afskaplega óheppilegt, þrátt fyrir að það sé yfirlýst stefna ákveðinna stjórnmálaflokka sem vissulega stjórna landinu, að verið sé að leggja línurnar fyrir þá vinnu sem enn er í gangi, vegna þess að vissulega kemur þetta fram í fjölmiðlum og þeir sem sitja í verkefnastjórn um rammaáætlun vita af þessu. Ég tel þetta óheppilegt.

Frú forseti. Ég vil enn og aftur þakka þeim þingmönnum sem hafa blandað sér í þessa umræðu og ég vonast til að við lærum af þessari meðferð málsins að reyna að koma okkur saman um einhverja niðurstöðu inni í nefndunum, a.m.k. reyna að afla upplýsinga og svara við þeim spurningum sem brenna á þingmönnum. Mér þætti ekkert ánægjulegra en að fá að taka sæti í umhverfisnefnd Alþingis til að fjalla um þetta mál og fleiri, en það er nú svo, frú forseti, að þingmenn hafa í mörg horn að líta, en hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér. Hugsanlega eigum við eftir að sitja þarna saman, ég og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir.