138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

minning Steingríms Hermannssonar.

[13:31]
Horfa

Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, lést í gær. Hann var á 82. aldursári.

Steingrímur Hermannsson fæddist í Reykjavík 22. júní 1928. Foreldrar hans voru Hermann Jónasson forsætisráðherra og kona hans, Vigdís Steingrímsdóttir húsmóðir.

Steingrímur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1948. Hann fór til framhaldsnáms í Bandaríkjunum, tók B.Sc.-próf í rafmagnsverkfræði í Chicago 1951 og meistarapróf í sömu grein í Pasadena í Kaliforníuríki 1952.

Heimkominn starfaði Steingrímur sem verkfræðingur um þriggja ára skeið en hélt þá á ný til Bandaríkjanna. Til Íslands kom hann aftur um ári síðar, varð framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs ríkisins og gegndi þeim starfa í tvo áratugi, frá 1957 þar til hann varð ráðherra árið 1978. Sem slíkur var hann aðalfulltrúi Íslands í vísindanefnd Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París. Hann átti sæti í fjölda stjórna og nefnda, einkum á sviði orku- og iðnaðarmála.

Steingrímur Hermannsson átti ekki langt að sækja áhuga sinn á stjórnmálum því að æskuheimili hans, Ráðherrabústaðurinn við Tjarnargötu, var miðstöð stjórnmála í landinu og forustu Framsóknarflokksins. Bein afskipti hans af stjórnmálum hófust er hann varð formaður Félags ungra framsóknarmanna í Reykjavík 1962, og tveim árum síðar var hann kjörinn í miðstjórn Framsóknarflokksins og sat þar í þrjá áratugi. Er faðir Steingríms lét af þingmennsku 1967 var Steingrímur kvaddur til framboðs í Vestfjarðakjördæmi, varð fyrst varaþingmaður eitt kjörtímabil og sat þá tvívegis á Alþingi. Hann var kjörinn alþingismaður fyrir Vestfjarðakjördæmi í kosningunum 1971 og var þingmaður Vestfirðinga í 16 ár, allt þar til hann fór í framboð í heimakjördæmi sínu á Reykjanesi. Hann var þingmaður Reyknesinga tvö kjörtímabil. Sama árið og Steingrímur varð alþingismaður, árið 1971, var hann kosinn ritari Framsóknarflokksins, og skömmu eftir að hann varð ráðherra var hann kosinn formaður flokksins, vorið 1979. Því embætti gegndi hann til 1994 er hann hvarf af Alþingi. Auk starfa á Alþingi átti Steingrímur sæti í hreppsnefnd Garðahrepps um tíma.

Við myndun annars ráðuneytis Ólafs Jóhannessonar eftir alþingiskosningarnar 1978 varð Steingrímur dóms- og kirkjumála- og landbúnaðarráðherra, fram í október árið eftir, og síðar á ný í febrúar 1980 sjávarútvegs- og samgönguráðherra eftir hina sögulegu stjórnarmyndun Gunnars Thoroddsens. Eftir kosningarnar vorið 1983 myndaði Steingrímur Hermannsson ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og gegndi embætti forsætisráðherra að því sinni í fjögur ár. Hann varð utanríkisráðherra í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar í rösklega eitt ár uns hann myndaði nýja ríkisstjórn í september 1988 og varð á ný forsætisráðherra fram í apríl 1991. Eftir að ráðherrastörfum lauk var Steingrímur forustumaður stjórnarandstöðunnar á Alþingi sem alþingismaður þar til hann var skipaður einn af bankastjórum Seðlabankans 1994. Því starfi gegndi hann þangað til hann náði sjötugsaldri.

Er Steingrímur Hermannsson kom inn á vettvang íslenskra stjórnmála fylgdi honum ferskur blær. Hann var menntaður erlendis, víðsýnn og nútímalegur í viðhorfum, og menntun hans í verkfræði og störf að rannsókna- og vísindamálum nýttust honum vel í þjóðmálaumræðunni og embættisstörfum. Hann var vinnusamur og tileinkaði sér hina alkunnu kappsemi föður síns. Hann var mikill útivistar- og landverndarmaður og lét umhverfismál mjög til sín taka á síðari árum.

Í stjórnmálum varð Steingrímur sigursæll foringi Framsóknarflokksins. Hann jók fylgi flokksins þegar í haustkosningunum 1979 og breytti ásýnd hans að mörgu leyti. Þótt hann ætti til framámanna að telja var stjórnmálastíll hans alþýðlegur, og sú hreinskiptni sem hann tamdi sér og glaðværð hans aflaði honum vinsælda og fylgis. Hann lagði sig fram um að vera í góðum tengslum við kjósendur og þjóðina alla. Samstarfsmenn Steingríms luku á hann lofsorði fyrir lagni og lipurð í samstarfi, en harðfylginn gat hann líka verið þegar honum þótti við þurfa. Mörg erfið viðfangsefni fékkst hann við í forustustarfi á löngum stjórnmálaferli en þau leysti hann jafnan svo að góð sátt ríkti. Á efri árum sínum naut Steingrímur almennrar virðingar og gat hann notið þess góða orðstírs sem hann gat sér.

Ég bið þingheim að minnast Steingríms Hermannssonar með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]