138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefði líka getað spurt mig um þýðingu annars úrskurðar umhverfisráðherra fyrir örfáum dögum sem fólst í því að ekki þarf að fara með Suðvesturlínu í mat á umhverfisáhrifum sem skiptir gríðarlega miklu máli fyrir orkunýtinguna. Ég er sannfærður um að orkunýting er leiðin til endurreisnar og skjótvirkra leiða til að fjölga mjög verulega störfum, sérstaklega í mannvirkjageiranum þar sem framkvæmdafallið varð gríðarlegt á síðustu missirum. Framkvæmdin í kringum Suðvesturlínu skipti mjög miklu máli, eins og við vitum, og liggur til grundvallar fyrir byggingu á álveri í Helguvík, gagnaveri á Ásbrú og nokkrum virkjanaáformum uppi á Hellisheiði sem á að nýta í þessu umhverfi.

Hv. þingmaður spyr mig um annan úrskurð umhverfiráðherra, út af Þjórsárvirkjunum. Hann hefur hins vegar, eins og kemur fram á bls. 2 í Morgunblaðinu í dag, engin áhrif á verkefni Landsvirkjunar á næstu mánuðum. Þar fyrir utan var væntanlega búið að taka þá orku frá til annarra hluta en að framleiða ál þannig að það hefur ekkert með þetta að gera. Rétt til að varpa ljósi á hversu margt er í deiglunni í orkunýtingu og uppbyggingu í atvinnumálum á allra næstu mánuðum og missirum — og auðvitað skiptir öllu að okkur takist að fjármagna þessar framkvæmdir — nefni ég fimm atriði, gagnaver Vernes Holdings á Reykjanesi, Búðarhálsvirkjun og stækkun Straumsvíkur, endurbyggingu á Suðvesturlínu, álver Norðuráls í Helguvík og við þetta má bæta ýmsu öðru. Gangi þessi áform fram á næstu mánuðum er um að ræða nokkur þúsund störf, allt að 4.000 störf á uppbyggingartíma, í mannvirkjageira, fyrir tæknimenntað og iðnaðarmenntað fólk. Það skiptir gríðarlegu máli að við sköpum það umhverfi að orkufyrirtækjunum og þeim sem ætla að standa á bak við þessar framkvæmdir (Forseti hringir.) takist að fjármagna þær. Það skiptir öllu máli.