138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins eiga orðastað við formann umhverfisnefndar, Þórunni Sveinbjarnardóttur, fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra, vegna synjunar núverandi umhverfisráðherra á aðalskipulagi Flóa- og Skeiðahrepps. Það væri áhugavert að heyra um atvinnustefnuna, hvernig ríkisstjórnin og einstakir stjórnarþingmenn og ráðherrar sjá hana fyrir sér á næstu mánuðum í ljósi skilaboða sem eru stöðugt á sama veg sem er seinkun og seinagangur. Mig langar að spyrja fyrrum ráðherra hvað telst eðlileg stjórnsýsla að geyma mál lengi í ráðuneytinu, hvort það sé eðlilegt að geyma þau í 14 mánuði áður en menn taka ákvörðun.

Aðalástæðan fyrir að ég vildi ræða við hv. þingmann var sú að síðustu þrjú árin hefur legið fyrir þinginu frumvarp til nýrra skipulagslaga þar sem m.a. er fjallað um að gefa heimild til að þriðji aðili greiði fyrir þann kostnað sem hann veldur sveitarfélögum vegna áforma um framkvæmdir eða eitthvað slíkt, hvort sem það er landeigandi, einhver framkvæmdaraðili, virkjanir, sumarbústaðir eða hvað annað sem mönnum dettur í hug, malargryfjur, sumt hvað sem þýðir litlar tekjur fyrir samfélagið en er kostnaður fyrir sveitarfélagið. Allir hafa verið sammála í mjög langan tíma, sveitarfélög og ráðuneyti, um að þetta ákvæði sé nauðsynlegt í lögunum. Eftir því sem ég best veit var það líka vilji þáverandi ráðherra. Þess vegna velti ég fyrir mér þegar núverandi ráðherra notar einmitt þessa ástæðu fyrir því að synja lögunum hvernig þetta mál sé komið, hvort formaður umhverfisnefndar hyggist taka það út úr skipulagslögunum því að það yrði vægast sagt mikið áfall fyrir sveitarfélögin í landinu ef þessi kostnaðarheimild yrði tekin út úr lögunum.