138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur vakið athygli mína að á eins árs afmæli ríkisstjórnarinnar sem lagði upp með það að hafa opið stjórnkerfi, allt uppi á borðinu, kemur fram í fréttum Ríkisútvarpsins að ekki hafi verið staðfest að hæstv. forsætisráðherra sé að fara að hitta forráðamenn Evrópusambandsins í Brussel. Hæstv. forsætisráðherra náðist á hlaupum, eins og fréttamaður orðaði það, og vildi ekki upplýsa hverja hún mundi hitta. Það gæti bara vel farið svo að hún mundi hitta eitthvert fólk þarna úti. Því síður vildi hæstv. forsætisráðherra upplýsa hvað yrði rætt á þessum fundum. (Utanrrh.: Hún gerði það nú.)

Virðulegi forseti. Það er staðfest að nú er ríkisstjórnin farin þá leið að loka fyrir upplýsingar, það er ekki staðfest af aðstoðarmanni hvað hæstv. forsætisráðherra er að gera fyrir hönd Íslands í opinberum erindagerðum. Þetta er ríkisstjórnin með opna og gagnsæja stjórnkerfið. (Gripið fram í: Allt uppi á borði?) Allt upp á borðið. Ég hvet hæstv. ríkisstjórn, af því að hér er talað um Ríkisútvarpið sem er nokkur órói um, til að upplýsa líka nýjasta vinkilinn í því máli. Hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra upplýsti að það hefur verið rætt, að manni skildist, nokkuð ítarlega í ríkisstjórninni að setja tugthús í Efstaleitið. (Samgrh.: Ríkisstjórnin sem þú varst í líka.)

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra er a.m.k. farinn að gangast við að hafa verið í fleiri ríkisstjórnum en þessari. [Hlátur í þingsal.] Það er vel, en minni hans er að öðru leyti mjög sérkennilegt. Hann gagnrýndi hins vegar hæstv. menntamálaráðherra allhressilega þegar hann sagði, með leyfi forseta:

„Ég hef það á stundum á tilfinningunni það sé farið í þetta gagnvart stöðvunum vegna þess að þeir ætli okkur þingmönnum landsbyggðarkjördæmanna að koma færandi hendi með einhverjar fjárfúlgur.“

Virðulegi forseti. Ég held að við þurfum að ræða þetta (Forseti hringir.) þegar við erum búin með nemendaskiptin varðandi vestnorræna sambandið.