138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Frú forseti. Nýlega var upplýst um það í fjölmiðlum að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir er einn af stofnendum eignarhaldsfélagsins Fljótshlíðinga og þannig viðskiptafélagi manna á borð við Björn Bjarnason, Óskar Magnússon og Kjartan Gunnarsson. Nú hefur þingmaður upplýst um þessi eignatengsl sín í hagsmunaskráningu Alþingis en frá því var greint í fjölmiðlum fyrir viku að svo væri ekki. Ég vil spyrja hv. þingmann að því hvort hún telji að þessi viðskiptatengsl hafi engin áhrif á störf hennar í nefnd sem fjalla á um rannsóknarskýrslu Alþingis, sér í lagi þar sem í ljós kemur að viðskiptafélagar hv. þingmanns eru fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Íslands frá því fyrir bankahrun og fyrrverandi stjórnarformaður Landsbanka Íslands.