138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[14:11]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Tekin er til afgreiðslu náttúruverndaráætlun, önnur í röðinni sem gilda á árin 2009–2013. Eins og þingheimur veit er árið 2010 komið og áætlunin svolítið á eftir áætlun. Hún var fyrst lögð fram fyrir 14 mánuðum, hefur hlotið umfjöllun á þremur þingum og nokkrar breytingar verið gerðar á henni, þær helstar að hæstv. umhverfisráðherra hefur tekið friðlýsingu Þjórsárvera og sett í sérstakan farveg og í meðförum nefndarinnar um jólaleytið var ákveðið að draga til baka tillögu um friðlýsingu brekkubobba í Hvannstóði á Reynisfjalli eins og þingheimi er kunnugt um og rætt var ítarlega um í gær. Að auki liggur fyrir glæný breytingartillaga frá hv. Einari Kristni Guðfinnssyni sem ég legg til að þingmenn styðji, auk þess sem ég auðvitað legg til að þingmenn allir styðji náttúruverndaráætlun Íslands.