138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[14:24]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það var mjög gott hjá hv. umhverfisnefnd að fella út ákvæðið um brekkubobba. Það hefði betur verið gert um ýmis önnur mál eins og til að mynda friðun Egilsstaðaskógar og Egilsstaðakletta og nokkur önnur mál er tengjast til að mynda Skaftárhreppi og aðalskipulagsvinnu þar. Það er eðlilegt að taka tillit til sveitarfélaga, heimamanna og landeigenda. Það er engin nauðsyn að fara fram með offorsi í þessu máli og leggja fram náttúruverndaráætlun sem er í mótsögn við aðalskipulag sveitarfélaga og í uppnámi innan þingsins. Þeim hefði verið í lófa lagið að leggja fram náttúruverndaráætlun sem fullkomin sátt væri um. Ekki eru til peningar til að uppfylla gömlu náttúruverndaráætlunina, hvað þá að bæta mörgum friðuðum svæðum við. Þess vegna mun Framsóknarflokkurinn segja nei við þessu þó að honum sé óljúft að segja nei við náttúruverndaráætlunum. (Forseti hringir.) Þessi er of illa unnin og ólíklegt að hún komi til framkvæmda á næstu fjórum árum. (VigH: Heyr, heyr.)