138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[14:25]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tel að hér liggi fyrir metnaðarfull áætlun um friðlýsingu mikilvægra náttúrufyrirbæra á Íslandi og þá áætlun styð ég. Ég get samt ekki annað en gert athugasemd við þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð gagnvart þeim svæðum sem ég þekki best til austur á Héraði. Svo virðist sem engin samskipti hafi verið við landeigendur í rannsóknarferli á afar sjaldgæfum fléttugróðri, sú rannsóknarvinna verið unnin í leyni fyrir þeim og þeir frétt af friðlýsingaráformum á landi í þeirra eigu í gegnum vef Alþingis. (Gripið fram í: Nú?) Svona vinnubrögð eru til þess fallin að skapa tortryggni og skemma fyrir framgangi metnaðarfullra áætlana eins og þeirrar sem hér liggur fyrir. (Gripið fram í.) Togstreitan sem sumir gera mikið úr milli ríkis og sveitarfélaga, milli borgar og byggðar, náttúru og mannvirkja, verður frekar að veruleika ef aðilar ræða ekki saman og reyna að ná sameiginlegum skilningi. (Gripið fram í.) Á þetta legg ég mikla áherslu um leið (Forseti hringir.) og ég get ekki annað gert en að benda á að þessi áætlun er viljayfirlýsing um friðlýsingar sem síðan á eftir að vinna frekari áætlanir um (Forseti hringir.) og því allir möguleikar á breytingum í því ferli. Því segi ég já.