138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[14:27]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að verið er að afgreiða nýja náttúruverndaráætlun frá Alþingi. Ég er hins vegar nokkuð mædd yfir þeim tóni sem hefur einkennt umræðuna. Ég held að það sé afar mikilvægt að við gætum að því að náttúruverndaráætlun er fyrst og fremst stefnuplagg og grundvöllur samkomulags og samtals milli til þess bærra stjórnvalda og sveitarfélaganna. Þetta verður að vinna í sátt, annars næst engin niðurstaða og engar friðlýsingar verða í landinu. Ég vænti þess af fullri einlægni að þeir þingmenn sem greiða atkvæði gegn náttúruverndaráætlun, sem mér finnst dapurlegt að þurfi að gera vegna pólitískra ástæðna sem ég ætla ekki að leggja mat á, verði okkur liðsmenn í því að búa til sátt um þessi dýrmætu svæði á Íslandi í framhaldinu.