138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[14:28]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er með mikilli sorg í hjarta sem ég kem hingað til að gera grein fyrir atkvæði mínu um það að ég ætli að segja nei við þessari náttúruverndaráætlun. Ég vildi svo sannarlega að vinnubrögðin hefðu verið önnur, ég vildi svo sannarlega að ég gæti stutt þetta mál. Það get ég ekki vegna þess samskiptaleysis sem einkennir það og þess virðingarleysis sem mér finnst að náttúruverndaráætlun sé sýnt með vinnubrögðum meiri hlutans. Ég tek undir orð hæstv. umhverfisráðherra Svandísar Svavarsdóttur um að það sé mikilvægt að við reynum að ná samstöðu í þessum mikilvæga málaflokki og ég skora á hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna að reyna að læra af þessu vinnulagi. Finnst ykkur skynsamlegt að við afgreiðum þetta mál í þessu ósætti? Ég hrósa sérstaklega hv. þm. Jónínu Rós Guðmundsdóttur fyrir að vera eini þingmaður stjórnarliðsins (Forseti hringir.) sem þorir að taka undir það að þetta mál sé ekki nægilega vel unnið af hálfu ríkisstjórnarflokkanna.